Loading…
7. september 2016

Ný önn Iceland Academy

Ný önn Iceland Academy
Haustönn Iceland Academy, sem er hluti af markaðsverkefninu Inspired by Iceland, hefst í dag með nýjum námskeiðum sem fræða erlenda ferðamenn um íslenska menningu, siði og náttúru.

Haustönn Iceland Academy, sem er hluti af markaðsverkefninu Inspired by Iceland, hefst í dag með nýjum námskeiðum sem fræða erlenda ferðamenn um íslenska menningu, siði og náttúru. Sérvaldir íslenskir leiðbeinendur fara yfir hverju eigi að pakka fyrir Íslandsferð, hvernig eigi að mynda norðurljós og segja frá íslenskri matarmenningu. Áhorfendum gefst svo kostur á að þreyta stutt krossapróf og kanna þekkingu sína á efni námskeiðsins, og þeir sem ljúka öllum námskeiðunum eiga möguleika á að vinna útskriftarferð til Íslands.

Í september verður haldið matreiðslunámskeið í beinni útsendingu á Facebook þar sem landsliðskokkurinn Ylfa Helgadóttir mun elda og fjalla um heilnæman íslenskan mat sem hefur stuðlað að því að Íslendingar eru á meðal langlífustu þjóða í heiminum. Fylgjendur á samfélagsmiðlum Inspired by Iceland munu velja hvaða íslenska rétt þeir sjá eldaðan í beinni útsendingu og munu geta sent inn spurningar til Ylfu sem hún svarar á meðan hún er að elda.

Yfir tíu þúsund hafa útskrifast úr Iceland Academy

Iceland Academy er herferð á vegum markaðsverkefnisins Ísland – allt árið. Frá því að fyrsta önnin hófst í febrúar á þessu ári hafa yfir þrjár og hálf milljón manns horft á kennslumyndbönd herferðarinnar, og rúmlega 10.000 manns hafa lokið prófi úr öllum námskeiðunum. Yfir 500 blaðagreinar hafa verið birtar um Iceland Academy í erlendum miðlum og herferðin hefur náð til um 85 milljón manns.

Ferðamönnum kennt að taka „sjálfu“ á ábyrgan hátt

Síðar á þessu ári munu bætast við námskeið um íslenskar hátíðir, hvernig eigi að taka „sjálfu“ á ábyrgan hátt, kosti þess að ferðast víðar um Ísland, heilsu og vellíðan, og svo um íslenska hestinn og Íslendingasögurnar.

Örnámskeið á netinu fyrir ferðamenn

Nýr áfangi markaðsverkefnisins Ísland – allt árið hófst þann 25. febrúar sl. með tilkomu Iceland Academy sem kynnt er undir merkjum Inspired by Iceland. Herferðin miðar að því að kenna ferðamönnum að ferðast um Ísland á öruggan og ábyrgan máta og um leið hámarka ánægju og áhuga ferðamanna með því að upplýsa þá með skemmtilegum hætti um ýmislegt sem varðar dvöl þeirra á Íslandi. Kennt er í formi örnámskeiða hvernig á að umgangast náttúru Íslands, hvar má tjalda, hvernig á að keyra á íslenskum vegum og hvernig á t.d. að hegða sér á baðstöðum. Einnig er ýmislegt forvitnilegt í íslenskri menningu, siðum og náttúru kynnt fyrir ferðamönnum með örnámskeiðum á myndbandsformi sem aðgengileg eru á vef og samfélagsmiðlum. 

Góð samvinna við ferðaþjónustufyrirtæki

Ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi hafa tekið virkan þátt í að kynna Iceland Academy fyrir erlendum ferðamönnum á Íslandi og hafa nær 1000 fyrirtæki um allt land upplýsingastand um herferðina frammi í móttöku.

Hægt er að skrá sig til náms í Iceland Academy á vefsíðunni www.inspiredbyiceland.com.

Deila