Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. maí 2016

Nox Medical hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Helgi Tómasson heiðraður

Nox Medical hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Helgi Tómasson heiðraður
Íslenska hugvitsfyrirtækið Nox Medical hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2016. Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðdegis í dag. Helgi Tómasson, listdansstjóri, fékk sérstaka heiðursviðurkenningu við sama tilefni.

Nox Medical leiðandi á heimsvísu

Nox Medical fær verðlaunin fyrir að hafa náð einstökum árangri á heimsvísu í þróun og smíði á lækningavörum sem notaðar eru til greiningar á svefntruflunum. Fyrirtækið var stofnað árið 2006 og fagnar því um þessar mundir 10 ára afmæli. Stofnendur Nox Medical eru sjö verkfræðingar sem höfðu áður starfað við hönnun lækningavara hjá fyrirtækinu Flögu sem flutti starfsemi sína frá Íslandi í lok árs 2005. Í dag starfa tæplega 50 manns hjá Nox Medical. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum náð sterkri fótfestu fyrir vörur sínar, en helstu markaðir þess eru í Evrópu og Norður-Ameríku.

Frá stofn­un fé­lags­ins hef­ur Nox unnið með sér­fræðing­um Land­spít­ala á sviði svefn­rann­sókna við þróun og próf­an­ir þess búnaðar sem Nox fram­leiðir. Starfsemi fyrirtækisins hefur skilað hagnaði frá því að fyrsta vara þess, Nox T3, var sett á markað árið 2009. Um var að ræða lækningatæki til svefnrannsókna sem var bæði öflugra og nákvæmara en sá búnaður sem fyrir var á markaðnum, auk þess að vera smærri og þægilegri í notkun fyrir sjúklinga. Nox T3 var hannað sérstaklega til greiningar á svefntruflunm hjá börnum þó notkun þess sé lang algengust meðal fullorðinna.
Árið 2013 setti fyrirtækið nýtt lækningatæki til svefngreininga á markað undir heitinu Nox A1. Það tæki er notað til flóknari mælinga sem alla jafna eru framkvæmdar inni á sjúkrastofnunum en þetta nýja lækningatæki gerir það jafnframt mögulegt að framkvæma slíkar mælingar í heimahúsum. 

Velta fyrirtækisins tífaldast á fjórum árum

Tekjur fyrirtækisins koma nær alfarið frá útflutningi. Frá árinu 2012 hefur vöxtur fyrirtækisins verið mjög hraður og hefur fyrirtækið tífaldað veltu sína síðan þá. Velta þess á síðasta ári var um 1.500 milljónir króna. Frá stofnun hefur félagið skilað rúmum 5 milljörðum króna í formi gjaldeyristekna til þjóðarbúsins. Ætla má að um tvær milljónir einstaklinga á öllum aldri gangist árlega undir svefngreiningu þar sem búnaður Nox Medical eru notaðar og vex sá fjöldi hratt með aukinni notkun á búnaði frá Nox og opnun nýrra markaða. Fyrirtækið seldi um 3.000 greiningartæki á síðasta ári, aðallega til Bandaríkjanna og Evrópu, en um 10% sölunnar fer til Asíulanda auk annarra markaðssvæða en gert er ráð fyrir örum vexti þar á komandi árum.

Helgi Tómasson heiðraður fyrir störf sín

Við sama tilefni var Helga Tómassyni, listdansstjóra veitt sérstök heiðursviðurkenning. Viðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. Fyrri handhafar þessara heiðursverðlauna eru m.a. Björk, Kristinn Sigmundsson óperusöngvari, Arnaldur Indriðason rithöfundur og ljósmyndarinn RAX.

Helgi Tómasson er einn virtasti dansfrömuður heims, og hefur vakið athygli sem bæði dansari, listdansstjóri og danshöfundur í yfir fjörtíu ár. Í fyrstu alþjóðlegu ballettkeppninni sem haldin var í Moskvu árið 1969 hafnaði Helgi í öðru sæti á eftir Mikhail Baryshnikov. Fljótlega eftir þetta var Helgi ráðinn til New York City Ballet þar sem hann dansaði við frábæran orðstír í hálfan annan áratug.

Árið 1985 lagði Helgi ballettskóna á hilluna og réð sig í stöðu  listræns stjórnanda San Francisco-ballettsins, elsta starfandi listdansflokks Bandaríkjanna, þar sem hann hefur starfað allar götur síðan. Undir stjórn Helga hefur San Francisco-ballettinn náð þeim árangri að vera í hópi bestu dansflokka samtímans, eftirsóttur um allan heim. Sem helsti danshöfundur flokksins hefur Helgi samið fjölda balletta, sem fluttir hafa verið á leiksviðum um víða veröld við fádæma góðar undirtektir.

San Francisco ballettinn mun dansa á fimm sýningum á Listahátíð í Hörpu í maí, undir stjórn Helga, og nýtur þar undirleiks frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 28. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru CCP, Hampiðjan, Trefjar ehf og Ferðaþjónusta bænda og á síðasta ári hlaut Icelandair Group verðlaunin. Sjá lista yfir fyrri verðlaunahafa

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Vilborg Einarsdóttir, stjórnarformaður hjá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Hér að neðan má sjá myndir frá athöfninni

Deila