Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. október 2019

Mótum framtíðina saman - Pétur Þ. Óskarsson

Mótum framtíðina saman - Pétur Þ. Óskarsson
Við Íslendingar stöndum á spennandi tímamótum. Eftir óvissu undanfarinna ára hefur íslenskt efnahagslíf tekið algerum stakkaskiptum og þrátt fyrir tímabundna kólnun á þessu ári, bendir allt til þess að við verðum komin á hagvaxtarbraut að nýju strax á næsta ári.

Aukið virði – nýjar tekjur

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því hjá Íslandsstofu að móta stefnu fyrir íslenskar útflutningsgreinar í samræmi við lög sem sett voru um starfsemina í fyrra. Í tengslum við þá vinnu hafa verið haldnar vinnustofur um land allt og með fulltrúum ólíkra atvinnugreina. Alls hafa yfir 350 manns tekið þátt í vinnustofunum. Þetta hefur verið gefandi starf og ljóst að tækifærin eru víða. Hefðbundnu útflutningsgreinar Íslands til þessa þ.e.; sjávarútvegur, ferðaþjónusta og orkusækinn iðnaður, standa vissulega frammi fyrir margvíslegum áskorunum en þessar greinar byggja á traustum grunni og tækifærin þar felast ekki síst í því að auka virði vöru og þjónustu, m.a. með öflugu markaðsstarfi og áframhaldandi nýsköpun. Takmarkað eðli náttúruauðlinda setur vexti þessara atvinnugreina hins vegar skorður og er nauðsynlegt að vöxtur í þeim byggi á sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Hugvitsdrifinn útflutningur, tengdur nýsköpun og tækni, á mikil sóknarfæri og gróska er í frumkvöðlastarfsemi. Engar skorður gilda þegar kemur að útflutningi sem ekki krefst aðgengis að náttúruauðlindum. Útflutningur sem byggir á hugviti en ekki staðbundnum náttúruauðlindum byggir á aðgengi að öflugum mannauði, bæði innlendum og erlendum sérfræðingum. Þá standa menningarstarfsemi og skapandi greinar á Íslandi framarlega í alþjóðlegum samanburði.

Áskorunin

Undirliggjandi er sú mikilvæga áskorun að tryggja komandi kynslóðum lífsgæði og spennandi störf. Við þurfum að tryggja það að ungt fólk kjósi að búa og starfa á Íslandi. Það gerum við meðal annars með því að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem skapar verðmæti með útflutningi, hvort sem um er að ræða vörur eða þjónustu. Og það er ekki sama hvernig það er gert.

Sjálfbærni er samnefnari

Einn þáttur stefnumótunarinnar laut að mörkun Íslands og mótun þeirra skilaboða sem við viljum sækja fram undir á erlendum mörkuðum. Ein þeirra spurninga sem leitað var svara við á vinnustofum var hvað væri æskilegast að erlendir aðilar tengdu við Ísland. Fljótlega kom í ljós sterkur þráður í svörunum og gilti nánast einu hvort fólk kom úr sjávarútvegi, iðnaði, hugvitsgreinum, ferðaþjónustu eða skapandi greinum svo dæmi séu tekin. Sjálfbærni var sá eiginleiki sem talinn var bestur til þess að búa íslenskum fyrirtækjum jákvæða aðgreinandi stöðu á mörkuðum. Framtíðarsýnin er því sú að Íslandi verði þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni. Hér höfum við sterka stöðu; rannsóknir sýna að á erlendum mörkuðum er orðspor Íslands gott þegar kemur að sjálfbærni og ósnortinni náttúru. Hins vegar stöndum við ekki eins vel að vígi þegar spurt er um ýmsa þætti sem snúa að innri gerð samfélagsins, viðskiptaumhverfi, nýsköpun og tækniinnviði. Þar er verk að vinna. Verkefnið okkar er að þróa skýra mörkun fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar og miðla áhrifaríkum sögum sem skapa traust á landi og þjóð. 

Gefandi ferðalag

Við höfum farið víða undanfarna mánuði, átt samtöl við fjölda fólks úr ólíkum atvinnugreinum um land allt, horft inn á við og út fyrir landsteinana. Við erum afar þakklát þeim mikla fjölda fólks sem hefur lagt stefnumótuninni lið. Hún er afrakstur viðamikils samtals þar sem niðurstaðan er sameiginleg sýn sem byggir á styrkleikum lands og þjóðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. október 2019.

Deila