Loading…

Mikill vöxtur á sjávarútvegssýningunni í Boston

Mikill vöxtur á sjávarútvegssýningunni í Boston

21. mars 2017

Íslandsstofa hafði umsjón með þátttöku 15 íslenskra fyrirtækja á sjávarútvegssýningunni í Boston sem fram fór dagana 19. -21. mars sl.

Íslandsstofa hafði umsjón með þátttöku 15 íslenskra fyrirtækja á sjávarútvegssýningunni í Boston sem fram fór dagana 19. -21. mars sl. Fulltrúar íslensku fyrirtækjanna voru mjög ánægðir með móttökurnar en fjöldi gesta sótti Íslandsbásana heim alla sýningardagana. Margir vildu kaupa íslenskan fisk en einnig var spurt um ábyrgar fiskveiðar og vottunarmál. Þá var aukinn áhugi á tæknilausnum fyrir sjávarútveginn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra heimsótti sýninguna fyrsta daginn og hitti fulltrúa íslensku fyrirtækjanna og kynnti sér starfsemi þeirra.

Á afurðahluta sýningarinnar voru sameiginlegir hagsmunir íslenskra útflytjenda sjávarafurða kynntir undir merkjum „Iceland Responsible Fisheries“ með áherslu á vottun íslenskra fiskistofna og ábyrgar fiskveiðar. Íslenskir framleiðendur og útflytjendur sjávarafurða sem njóta þjónustu viðskiptafulltrúans í New York og Íslandsstofu kynntu afurðir sínar og þjónustu undir yfirskriftinni „Fresh or Frozen – Sourcing from Iceland“. Það voru fyrirtækin HB Grandi, Iceland Seafood, Novo Food, Ice-Co Foods, Matís, Matorka, Reykjavík Seafood, Blámar, Arnarlax og Ísfiskur. Þetta var í sjötta sinn sem afurðafyrirtæki nýta sér samstarfið við viðskiptafulltrúann og Íslandsstofu með þessum hætti og hefur árangurinn verið góður. Á véla- og tækjasýningunni, Seafood Processing North America, voru fyrirtækin Valka, Optimar Kapp, Skaginn3X, Wise og Eimskip samankomin undir hatti Íslands. Auk þess voru Marel, Sæplast, Curio og Íslenska umboðssalan þátttakendur á sýningunni.

Mun fleiri gestir heimsóttu sýninguna í ár en undanfarin ár og hefur sýnendum einnig fjölgað undanfarin tvö ár, voru 1.387 árið 2017 eða 15% fleiri en árið 2016, en þá hafði þeim fjölgað um ca. 180 frá árinu áður. Gestum og sýnendum frá Evrópu og Asíu fjölgaði mikið í ár, sem skýrist líklega af sterku gengi bandaríkjadollara. Sjávarútvegssýningin í Boston er stærsta sýning sinnar tegundar í Norður-Ameríku og sækja hana árlega um 22.000 manns.

Deila