Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. ágúst 2016

Mikil tækifæri íslenska jarðvarmageirans á alþjóðamörkuðum

Mikil tækifæri íslenska jarðvarmageirans á alþjóðamörkuðum

Íslandsstofa kynnti í morgun niðurstöður kortlagningar jarðvarmageirans. Markmið verkefnisins var að kortleggja starfsemi fyrirtækjanna og markaðsstarf þeirra erlendis með það fyrir augum að skoða tækifæri á samstarfi. Ráðinn var sérstakur verkefnastjóri til verksins og byggja niðurstöður hans á upplýsingum frá rúmlega 50 aðilum í greininni. 

Tækifæri í sérstöðu og ímynd Íslands

Helstu niðurstöður leiddu í ljós að mikil þörf er á að fyrirtækin vinni saman sem heild að markaðssetningu inn á valda markaði erlendis. Ísland hefur skapað sér sérstöðu og ímynd sem er nú þegar vel þekkt en markaðurinn er lítill og samkeppni fer vaxandi. Mikil sérhæfing dregur úr möguleikum fyrirtækjanna og ekkert þeirra býður upp á heildarlausnir á sviði jarðvarma. Þetta takmarkar getu íslenskra fyrirtækja til að takast á við stór verkefni í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Fyrirtækin hafa þó hugmyndir að ýmsum aðgerðum sem þau telja nauðsynlegt að ráðast í til að efla samkeppnisstöðu sína erlendis.

Efla nýsköpun og menntun á sviði jarðvarma

Mikil tækifæri finnast innan greinarinnar og er mikilvægt að efla enn frekar nýsköpun, menntun, rannsóknir og þekkingarmiðlun í greininni. Jarðhitaskóli Sameinuðu þjónanna og viðskiptahraðallinn Startup Energy vinna mjög gott starf en auk þess er nauðsynlegt að efla aðrar menntastoðir á sviði jarðvarma. Öflugt samtal milli greinarinnar og stjórnvalda er grundvallaratriði til að vel takist til við áframhaldandi uppbyggingu jarðvarmageirans.

Nánari upplýsingar veitir Erna Björnsdóttir, verkefnastjóri á sviði iðnaðar og þjónustu, erna@islandsstofa.is .

Skýrslan er aðgengileg á markaðsvef Íslandsstofu, smidjan.islandsstofa.is

Deila