Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
19. maí 2015

Markaðsstarf tengt íslenska hestinum erlendis

Markaðsstarf tengt íslenska hestinum erlendis
Markaðsverkefni um íslenska hestinn hefur verið ýtt úr vör með aðkomu helstu samtaka og hagsmunaaðila í greininni.

Hagsmunaaðilar taka höndum saman

Markaðsverkefni um íslenska hestinn hefur verið ýtt úr vör með aðkomu helstu samtaka og hagsmunaaðila í greininni. Tilgangurinn er að marka stefnu í kynningu á honum erlendis og gera aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að styrkja ímynd íslenska hestsins með samhæfðum skilaboðum, markaðsaðgerðum og kynningarstarfi. Áherslan verður á verðmætasköpun og gjaldeyrisaukningu tengda greininni.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið fjármagna stærstan hluta fyrst áfanga verkefnisins 2015, en Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins. Í þessum fyrsta áfanga er ætlunin að leggja grunn að langtímaverkefni, skapa sameiginlega sýn, setja markmið og móta stefnu sem aðilar í greininni geta sameinast um í kynningarstarfi á erlendum mörkuðum.

Verkefnið á að nýtast til kynningar á íslenska hestinum og allri starfsemi honum tengdri og til ímyndaruppbyggingar. Lögð er áhersla á samstarf og virka þátttöku hagsmunaaðila og á upphafsfundi verkefnisinis sem haldinn var 14. apríl í Borgarnesi, bauð fjöldi manns sig fram til að taka þátt í verkefninu. Tveir vinnufundir hafa verið haldnir og á þá mættu um 40-50 manns í hestamennsku og tengdri starfsemi. Rætt var um styrkleika og veikleika greinarinnar og tækifæri og ógnanir, áherslur voru mótaðar um markaðssvæði, markhópa og markaðsaðgerðir. Fyrirliggjandi gögn og skýrslur verða rýndar og nýttar í vinnunni. Þá er samráðsfundur boðaður 27. maí auk þess sem viðtöl verða tekin við fjölda aðila.

Íslandsstofa vinnur með verkefnisstjórn sem skipuð er aðilum frá Félagi hrossabænda, Landssambandi hestamannafélaga, Félagi tamningamanna, háskólunum, útflytjendum, Samtökum ferðaþjónustunnar og ráðuneytunum sem að verkefninu standa.

Miklar væntingar eru til verkefnisins og hafa undirtektir verið góðar. Með góðri samvinnu félagasamtaka og þeirra sem hafa hagsmuna að gæta er það von manna að bæta arðsemi greinarinnar bæði hérlendis og erlendis.

Sjá einnig: www.islandsstofa.is/frettir/markadsverkefni-um-islenska-hestinn-ytt-ur-vor/543

Deila