Loading…
7. febrúar 2017

Margir komu á fund um matvælamarkaðinn í Bandaríkjunum

Margir komu á fund um matvælamarkaðinn í Bandaríkjunum
Íslandsstofa í samstarfi við aðalræðisskrifstofuna í NY boðaði til fundarins til að fylgja eftir áhuga íslenskra matvælaframleiðenda á að sækja á bandaríska markaðinn. Fræðandi erindi voru flutt um markaðsaðgengi og dreifileiðir í Bandaríkjunum með áherslu á fyrirtæki í matvæla-, drykkjarvöru- og næringarefnageiranum, sérvörumarkaðinn og greint frá þróun útflutnings á matvælum til Bandaríkjanna.

Föstudaginn 3. febrúar sl. stóð Íslandsstofa fyrir fundi um matvælamarkaðinn í Bandaríkjunum, í samstarfi við aðalræðisskrifstofu Íslands í New York. Mikill áhugi var fyrir fundinum og mættu rúmlega 80 fulltrúar frá um 60 fyrirtækjum í margvíslegri matvælaframleiðslu, auk þess sem nokkrir fylgdust með beint á netinu. 

Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu opnaði fundinn og sagði markmið hans að gefa íslenskum fyrirtækjum í matvælageiranum innsýn í bandaríska markaðinn og veita hagnýtar upplýsingar, en í nýlegri könnun Íslandsstofu kom fram mikill áhugi á að sækja á Bandaríkjamarkað. Guðný kynnti helstu niðurstöður greiningar á umfjöllun um íslensk matvæli á vef- og samfélagsmiðlum, sem Íslandsstofa lét framkvæma. Umfjöllunin er almennt jákvæð og ljóst að tækifæri eru á samfélagsmiðlum ef litið er til almennrar vefnotkunar neytenda í Bandaríkjunum sem afla sér upplýsinga um og kaupa matvörur og drykki á netinu í ríkum mæli. Einnig sagði hún frá þjónustu Íslandsstofu, bæði í markaðssamstarfi og þjónustu við einstök fyrirtæki. Sjá kynningu hér

Björgvin Þór Björgvinsson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu fjallaði um útflutning matvæla til Bandaríkjanna, hvaða afurðir eru fluttar út og hver þróunin hefur verið síðustu ár. Í erindi hans kom m.a. fram að mikilvægi Bandaríkjamarkaðar fyrir íslenskar sjávarafurðir hefur aukist að nýju undanfarin ár, og þá sérstaklega fyrir ferskan þorsk. Bandaríkin eru einnig mikilvægur markaður fyrir ýsu, íslenskar drykkjarvörur og eldisafurðir (lax og bleikju). Sjá kynningu hér

Eric Skae, forstjóri Rao’s Specialty Foods, hélt afar gagnlegt erindi um markaðsaðgengi og dreifileiðir í Bandaríkjunum með áherslu á fyrirtæki í matvæla-, drykkjarvöru- og næringarefnageiranum. Eric hefur mikla reynslu og þekkingu á bandaríska markaðnum en hann hefur veitt ráðgjöf og stjórnað ýmsum fyrirtækjum í sölu og dreifingu á mat- og drykkjarvörum, þ.á.m. Iceland Spring í Bandaríkjunum. Í erindi sínu fjallaði Eric um hlutverk miðlara (e. Brokers), dreifingaraðila (e. Distributors), smásala og  verslunarkeðja (e. retail channels), auk þess að koma inn á  vörumerkjastjórnun (e. brand management). Hann fór einnig yfir hagnýt atriði sem vert er að hafa í huga áður en ný vara er sett á markað og lagði áherslu á mikilvægi góðs undirbúnings áður en farið er af stað. Sjá kynningu hér

Hlynur Guðjónsson, aðalræðismaður og viðskiptafulltrúi Íslands í New York talaði um helstu einkenni bandaríska sérvörumarkaðarins og hver þróunin hefur verið síðustu ár. Hann fjallaði um markaðinn út frá sýn framleiðandans, innflytjandans og dreifiaðilans og það hverjir kaupendur sérmatvöru eru (speciality food). Hann ræddi einnig um mikilvægi þess að nýta vef- og samfélagsmiðla til að ná til kaupenda. Hlynur kynnti fyrirhugaða hópferð á matvælasýninguna Fancy Food show í New York sem haldin verður 24. – 27. júní nk. Íslandsstofa mun kanna áhuga fyrirtækja á þátttöku í sýningunni.
Sjá kynningu hér

Í lok fundar greindu fulltrúar fjögurra fyrirtækja í matvælageiranum frá reynslu sinni af bandaríska markaðinum, auk þess sem tækifæri gafst fyrir spurningar til fyrirlesara. Þetta voru þeir Gunnar Már Örlygsson frá IceMar, Óskar Þórðarson frá OmNom, Stefán Atli Thoroddsen frá Jungle Bar og Guðjón Guðmundsson frá Einstök bjór. 

Upptökur frá fundinum má nálgast hér.

Deila