Loading…
30. apríl 2019

Marel hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2019

Marel hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2019
Marel hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands sem veitt voru í 31. skipti. Árni Oddur Þórðarson forstjóri fyrirtækisins, veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Við sama tilefni var Hallfríður Ólafsdóttir, höfundur Maxímús Músíkús, sæmd heiðursviðurkenningu fyrir að bera hróður Íslands víða um heim.

Framúrskarandi árangur

Marel fær verðlaunin fyrir að hafa náð framúrskarandi árangri í framleiðslu og sölu á hátæknibúnaði og kerfum fyrir matvælavinnslu. Fyrirtækið hefur nú til fjölda ára verið í fararbroddi í þróun hátæknibúnaðar sem notaður er til vinnslu á kjöti, kjúklingi og fiski, allt frá slátrun til pökkunar. Uppbygging Marel undanfarin 15 ár hefur verið einstök og skilað félaginu í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Fyrirtækið hefur nú þróast í alþjóðlegt fyrirtæki með 6.000 starfsmenn, skrifstofur starfræktar í 33 löndum.

Nýsköpun og vöruþróun í forgrunni

Nýsköpun hefur einkennt Marel frá fyrstu tíð. Fyrirtækið ver að jafnaði 6% af heildartekjum í nýsköpun árlega, eða sem samsvaraði 74 milljónum evra árið 2018. Þetta hefur skilað sér í öflugri vöruþróun, en á síðustu þremur árum hefur Marel þróað 50 nýjar vörutegundir.

Árið 2018 námu tekjur Marel um 1,2 milljarð evra.

Björgólfur Jóhannsson, formaður stjórnar Íslandsstofu sagði m.a. um fyrirtækið í ræðu sinni á Bessastöðum: „Það eru fá fyrirtæki með íslenskar rætur sem hafa náð eins langt og Marel. Með þrautseigju að vopni og framsýni - og ekki síst ötulli markaðssókn - hefur forsvarsmönnum fyrirtækisins tekist að gera Marel að einu fremsta útflutningsfyrirtæki Íslands.“

Marel stendur nú á tímamótum, en ákveðið hefur verið að skrá hlutabréf félagsins í Euronext kauphöllina í Amsterdam á þessu ári.

Hallfríður Ólafsdóttir heiðruð fyrir Maxímús Músíkús

Við sama tilefni var Hallfríði Ólafsdóttur, höfundi Maxímús Músíkús, veitt heiðursviðurkenning fyrir að hafa með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð.  

Á síðasta ári hlaut Heimir Hallgrímsson þennan heiður fyrir störf sín í þágu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna frú Vigdísi Finnbogadóttur, Helga Tómasson listdansstjóra, Björk og ljósmyndarann RAX.

Samkvæmt Hallfríði snýst verkefnið Maxímús Músíkús um að „opna heim hinnar dásamlegu sinfónísku tónlistar fyrir börnum og fjölskyldum þeirra, tónlistar sem nær utanum að tjá allt það sem manneskjan hefur yfir að búa; gleði og kæti, grín og drama, angurværð og hryggð, ógn og öryggi, hugrekki og uppgjöf, leit og fullvissu.“

Sögurnar um tónlistarmúsina Maxímús Músíkús hafa verið gefnar út á sex tungumálum auk íslensku og þýddar á samtals þrettán tungumál. Rafbækur, tölvu- og símaleikir hafa einnig verið gerðir. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hljóðritað öll tónverkin á geisladiskunum sem fylgja sögunum og hefur margoft haldið tónleika byggða á sögunum, í Reykjavík og í öðrum bæjarfélögum.

Frá árinu 2008 hafa tónleikar byggðir á sögunum verið fluttir um 130 sinnum af 22 sinfóníu- og kammerhljómsveitum fyrir vel á annað hundrað þúsund tónleikagesti víða um heim, m.a. í New York, Melbourne, Los Angeles, Berlín, Winnipeg og Kuala Lumpur.

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 31. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Nox Medical, Icelandair Group, HB Grandi, Truenorth, CCP og Bláa lónið, og á síðasta ári hlaut Sjóklæðagerðin – 66°Norður verðlaunin.

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Björgólfur Jóhannsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Um verðlaunagripinn

Marel fær til eignar verðlaunagrip – listaverk - eftir íslenskan listamann. Verðlaunagripurinn í ár er gerður af listakonunni Elínu Hansdóttur og heitir verkið Fjögurra laufa Smári. Listamaðurinn segir um verk sitt: „Hugsanlega er fágæti fjögurra laufa smárans ástæða þess að hann er algengasta táknmynd lánsemi í hinum vestræna heimi. Í fágætinu er fólgin sú sögn að lán sé ekki sjálfgefið; þvert á móti helst það í hendur við þá sjaldgæfu elju og hugrekki sem þarf til að nýta þau tækifæri sem gefast.“


Deila