Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
9. mars 2018

Landkynningarhátíðin Taste of Iceland í Boston

Landkynningarhátíðin Taste of Iceland í Boston
Taste of Iceland hátíðin var haldin í Boston dagana 8.-11. mars sl.

Taste of Iceland landkynningarhátíðin var haldin í Boston dagana 8.-11. mars sl. 
Mikið var um að vera á hátíðinni. Georg Arnar Halldórsson matreiðslumeistari frá Sumac galdraði fram rétti úr íslensku hráefni á veitingastaðnum Townsman og var íslenski fiskurinn, lambið og skyrið áberandi. Teitur Ridderman Schiöth barþjónn kynnti kokteila þar sem Brennivín og Reyka Vodka spiluðu aðalhlutverk. Á Reykjavík Calling tónleikunum í Paradise Rock Club stigu íslensku hljómsveitirnar JFDR og Sturla Atlas á stokk. Þá hélt Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr og Brattle Theather kvikmyndahúsið sýndi Shortfish stuttmyndir af Stockfish kvikmyndahátíðinni. Sjá nánari dagskrá

Í ár fór Taste of Iceland fram í Boston, Chicago, Seattle, New York og Toronto. Þetta er í níunda sinn sem Taste of Iceland fer fram, en markmið hátíðarinnar er að kynna Ísland og íslenska framleiðslu með því að bjóða heimafólki að njóta íslenskrar matargerðar og menningar. Kynningar á viðburðunum fara fram í gegnum samfélagsmiðla, almannatengsl og auglýsingar. Samningur er gerður við almannatengslaskrifstofu í hverri borg sem sér um að efla fjölmiðlaumfjöllun á hátíðinni.

Taste of Iceland er skipulagt af Iceland Naturally, markaðs- og kynningarverkefni Íslands í Norður Ameríku sem Íslandsstofa og utanríkisráðuneytið reka sameiginlega og miðar að því að kynna íslenskar vörur og þjónustu í Norður Ameríku.

Deila