Loading…
10. júní 2016

Landkynning í Frakklandi í tengslum við EM 2016

Landkynning í Frakklandi í tengslum við EM 2016
Íslandsstofa, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og sendiráð Íslands í Frakklandi skipuleggja landkynningarverkefni í tengslum við Evrópumeistaramótið í knattspyrnu karla sem haldið verður í Frakklandi dagana 10. júní til 10. júlí.

Íslandsstofa, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og sendiráð Íslands í Frakklandi skipuleggja landkynningarverkefni í tengslum við Evrópumeistaramótið í knattspyrnu karla sem haldið verður í Frakklandi dagana 10. júní til 10. júlí.

Markmið verkefnisins er að nýta tækifærið sem gefst með EM til að kynna Ísland og íslenska menningu í Frakklandi og verður m.a. efnt til margvíslegra list- og matarviðburða í París, St Etienne og Marseille þar sem íslenska landsliðið spilar fyrstu leiki sína í keppninni.

Þann 13. júní verður bókmenntaviðburðurinn Rencontre Literaire Islandaise í St Etienne í bókabúðinni Librairie De Paris, 68 Rue Michel Rondét. Steinunn Sigurðardóttir og Hallgrímur Helgason ásamt Valerie Landry og Alexandra Charroin Spangenberg ræða um íslenskar bókmenntir. Teitur Magnússon tónlistarmaður mun leika nokkur lög eftir umræðurnar. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra mun opna viðburðinn sem hefst kl. 17.30.

Illugi Gunnarsson opnar síðan Menningarhátíðina Air d‘Islande 17. júní í La Criée leikhúsinu í Marseille þar sem íslenska fjallkonan stígur á stokk í tilefni þjóðhátíðardagsins. Barði Jóhannsson flytur frumsamda tónlist við kvikmyndina HÄXAN sem er meistaraverk frá tímabili þöglu myndanna og fjallar um nornir og galdra.

Þann 18. júní verður Air d'Islande í Make It Marseille Galleríinu frá kl. 11.00 – 19.00. Sýnd verða vídeóverk og kvikmyndir eftir franskt og sænskt listafólk sem eiga það sameiginlegt að hafa unnið verkin á Íslandi. Verkin urðu til í samstarfi við Centre Pompidou safnið í París, SÍM á Íslandi, Statens Kulturråd í Svíþjóð, Skaftfell listamiðstöðina á Seyðisfirði, Norrænu listamannasamtökin og Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík. Verkin bregða öll upp áhugaverðu ljósi af Íslandi og gefa áhorfendum mynd af upplifun listafólksins þar. Listamaðurinn Curver kemur fram og verður með "eigið herbergi" í rýminu. Snæbjörn Brynjarsson og Ragnheiður Bjarnarson verða einnig með "eigið herbergi" í rýminu og koma til með að vera með innsetningu og vídeólist, ásamt gjörningi.

Evróputorg í París, íslenskt hús á Ráðhústorginu og fleira

17. júni verða þjóðhátíðartónleikar með President Bongo og ADHD á La Machine du Moulin Rouge. Tónleikarnir byrja kl. 20.

Í París verður íslenskt hús á ráðhústorginu frá 18. júní allt þar til keppnin er yfirstaðin en fyrir utan almenna landkynningu þar verður efnt til ýmissa viðburða til að kynna íslenska menningu og mat.

·       20. júní verður tónlistar og matarviðburður á Evróputorginu í París frá kl. 18:00 bæði á íslenska svæðinu og í hvelfingu sem verður sett upp á torginu. Matvælasvið Íslandsstofu sér um matarsmakk með Viktori Erni Andréssyni matreiðslumeistara og keppanda í Bocuse d‘Or keppninni.

·       20. - 23. júní verður tónlist við íslenska húsið. Margrét Arnardóttir og Birkir Blær spila íslensk dægurlög á harmónikku og saxófón.

·       25. júní verður sett á laggirnar prjónavinnustofa þar sem íslensk prjónahefð og ull verður í forgrunni.

·       8. - 10. júlí mun Snorri Helgason sjá um tónlist við íslenska húsið.

Myllumerkin sem verða notuð í kringum landkynninguna eru; #icelandsecret og #em2016.

Á Facebook síðu Íslandsstofu verður hægt að fylgjast jafnóðum með fréttum af landkynningarverkefninu í Frakklandi.

Deila