Loading…
28. febrúar 2017

Íslensk menning kynnt í Boston

Íslensk menning kynnt í Boston
Landkynningarhátíðin Taste of Iceland verður haldin í Boston í áttunda sinn dagana 16.-20. mars nk. Markmiðið er að kynna Ísland og vörur og þjónustu frá Íslandi fyrir heimamönnum í gegnum upplifun á mat og menningu.

Landkynningarhátíðin Taste of Iceland verður haldin í Boston í áttunda sinn dagana 16.-20. mars nk. Markmiðið er að kynna Ísland og vörur og þjónustu frá Íslandi fyrir heimamönnum í gegnum upplifun á mat og menningu.

Sigurður Helgason, matreiðslumeistari á Grillinu kynnir íslenska matargerð og hráefni á veitingastaðnum The Merchant sem staðsettur er í miðbæ Boston. Kári Sigurðsson kokteilgerðarmeistari reiðir fram verðlaunadrykki fyrir Bostonbúa samhliða íslenska matseðlinum.

Eliza Reid, forsetafrú Íslands verður með í för og kynnir íslenskar bókmenntir og bókmenntahefð Íslendinga. Eliza er einn stofnenda Iceland Writers Retreat, gestavinnustofa á Íslandi þar sem þekktir höfundar alls staðar að úr heiminum leiðbeina þátttakendum á málstofum um ritlist. Kynningin er haldin í samstarfi við WBUR ríkisútvarpsstöðina í Boston.

Á tónleikunum Reykjavik Calling stíga íslensku hljómsveitirnar Mammút og Fufanu á stokk ásamt Boston bandinu the Dirty Dotty´s. Tónleikarnir eru skipulagðir í samstarfi við ÚTÓN, og útvarpsstöðina WERS 88.9fm í Boston.

Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar heldur kynningu á íslenskri myndlist í samstarfi við SoWA samtök galleríista og myndlistarmanna í Boston.

Shortfish, stuttmyndadagskrá Stockfish hátíðarinnar í Reykjavik verður sýnd í Brattle Theatre en sýningin gefur mynd af kvikmyndasenunni og upprennandi kvikmyndagerðarfólki frá Íslandi.

Hátíðin er skipulögð af Iceland Naturally, markaðs- og kynningarverkefni Íslands í Norður Ameríku, sem Íslandsstofa og utanríkisráðuneytið reka sameiginlega og miðar að því að kynna íslenskar vörur og þjónustu í Norður Ameríku. 

Allar nánari upplýsingar um Taste of Iceland er að finna á vefsíðu Iceland Naturally

Deila