Loading…
1. nóvember 2012

Íslensk matarmenning kynnt í Tórínó

Íslensk matarmenning kynnt í Tórínó
Slow Food sýningin Salone del Gusto fór fram í Tórínó á Norður-Ítalíu dagana 25.-29. október. Á sýningunni fór fram fjöldinn allur af matvælakynningum og fyrirlestrum um sértæk matvæli en þar voru samankomnir margir helstu sérfræðingar á sviði menningarlegrar matvælaframleiðslu, víngerðar og matseldar víðs vegar úr heiminum.

Slow Food sýningin Salone del Gusto fór fram í Tórínó á Norður-Ítalíu dagana 25.-29. október. Á sýningunni fór fram fjöldinn allur af matvælakynningum og fyrirlestrum um sértæk matvæli en þar voru samankomnir margir helstu sérfræðingar á sviði menningarlegrar matvælaframleiðslu, víngerðar og matseldar víðs vegar úr heiminum.

Íslandsstofa skipulagði þátttöku átta fyrirtækja á sýningunni þar sem þau kynntu íslensk matvæli sem og matartengda ferðaþjónustu á Íslandi. Íslensku þátttakendurnir voru eftirfarandi: Rjómabúið Erpsstaðir, Saltverk Reykjaness, Móðir Jörð, Urta Islandica, Ytri Fagridalur, Sívakur, Lónkot og Ríki Vatnajökuls en komu þau öll fram undir einu slagorði: „Slow Food in Iceland“.

Íslensku sýnendurnir voru sáttir með viðtökurnar sem þeir fengu. Gestum var boðið að bragða íslensk matvæli, en Gísli Matthías Auðunsson matreiðslumaður eldaði m.a. Hvannalamb. Einnig var m.a. boðið upp á skyrkonfekt, salt, kornafurðir og íslenska sultu en mikill áhugi var á íslensku afurðunum og góður rómur gerður af matnum.
Íslensku fyrirtækin notuðu einnig tækifærið til að kynna sér það sem aðrir eru að gera í greininni og hafa því ýmsu að fylgja eftir þegar heim er komið.

Salone del Gusto sýningin er haldin annað hvert ár og er skipulögð af Slow Food samtökunum. Sýnendur eru tæplega eitt þúsund og koma víðs vegar að úr heiminum. Gestir eru um 200.000 talsins en þar á meðal eru fagaðilar, sérfræðingar, matreiðslumenn, blaðamenn og áhugamenn um gæðamatvæli í anda Slow Food.

Megin markmið Slow Food samtakanna er að auka meðvitund fólks um mikilvægi matarmenningar, þekkingar, hefðar og landfræðilegs uppruna matvæla. Einkunnarorð samtakanna eru „góður, hreinn og sanngjarn“ og er þar átt við að maturinn eigi að bragðast vel, vera laus við aukaefni, náttúrulegur og ómengaður og verðið sanngjarnt jafnt fyrir neytandann sem framleiðandann.
Salon del Gusto sýningin er stærsti viðburður samtakanna á alþjóðavettvangi.

Deila