Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. júní 2011

Íslandskynning í fyrsta sinn á alþjóðlegri ferðakaupstefnu í Peking

Stefnt að aukningu ferðamanna frá Kína til Íslands

Alþjóðlega ferðakaupstefnan „Beijing International Travel Expo 2011“ hefst í Peking á morgun, 17. júní. Á ferðakaupstefnunni eru sýningarbásar frá helstu móttökuríkjum kínverskra ferðamanna um víða veröld. Íslenskur bás er þar í fyrsta skipti og er Íslandskynningin samstarfsverkefni sendiráðsins í Peking, Íslandsstofu og íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.

Á síðasta ári fór fram stærsta landkynningarverkefni Íslands til þessa í Kína en íslenski skálinn á heimssýningunni í Sjanghæ 2010 tók á móti 2,3 milljónum gesta. Áhugi Kínverja á Íslandi hefur sjaldan verið meiri og hefur hann síst minnkað eftir eldgos síðustu missera. Kynningarstarf sendiráðsins, íslenska skálans og Íslandsstofu hefur miðast við að kynna samspil íslenskrar menningar, náttúru og endurnýtanlegra orkugjafa. Alþjóðlega ferðakaupstefnan í Peking stendur í þrjá daga frá og með 17. júní. Að íslenska básnum standa Icelandair, Fosshótel og Íslandsstofa auk sendiráðsins. Í tengslum við kaupstefnuna er gefinn út sérstakur bæklingur um ferðamál en að honum standa áðurnefndir aðilar ásamt Reykjavíkurborg, Allrahanda og Guðmundi Tyrfingssyni ehf.

Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) fjölgar stöðugt þeim Kínverjum sem ferðast erlendis. Rúmlega 57 milljónir Kínverja fóru til útlanda í fyrra sem er um tuttugu prósent aukning á milli ára. Kínverjar eru í dag í fjórða sæti þjóða á heimsvísu hvað varðar fjölda ferðamanna sem fara út fyrir landsteinana. Vinsælustu viðkomustaðir þeirra utan Asíu og Eyjaálfu eru Bandaríkin og Frakkland. Kínversku ferðamálasamtökin (CTA) segja að kínverskir ferðamenn hafi verslað erlendis fyrir andvirði 48 milljarða bandaríkjadala í fyrra sem er 15 prósentum meira en árið áður.

Á síðasta ári höfðu 5194 kínverskir ferðamenn viðdvöl á Íslandi skv. komutalningum á Leifsstöð. Markmið samstarfsaðila í ferðaþjónustu og sendiráðs Íslands í Peking er að Ísland verði í auknum mæli spennandi áfangastaður fyrir kínverska ferðamenn á framandi slóðum. Af þessu tilefni verður ferðamálasíða Íslandsstofu, www.visiticeland.com, aðgengileg á kínversku innan skamms.

Nánari upplýsingar veita:

Kristín A. Árnadóttir, sendiherra s. 545 7953,  kaa@mfa.is
Hafliði Sævarsson, menningar- og viðskiptafulltrúi s. +86 138 1057 9715, haflidi@mfa.is
Þorleifur Þór Jónsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu, s. 511 4000,  thorleifur@islandsstofa.is

Deila