Loading…

Ísland tekur þátt í ferðakaupstefnunni MATKA í Finnlandi

Ísland tekur þátt í ferðakaupstefnunni MATKA í Finnlandi

21. janúar 2016

Íslandsstofa skipuleggur þátttöku Íslands í ferðakaupstefnunni MATKA í Finnlandi með fimm íslenskum fyrirtækjum. Kaupstefnan sem hófst í morgun er sú stærsta sinnar tegundar í Norður-Evrópu.

Góðir gestir heimsóttu íslenska básinn fyrsta daginn á MATKA. Það voru sendiherra Íslands, Kristín Árnadóttir, Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri og María Reynisdóttir, sérfræðingur í ferðamálum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Á myndinni eru einnig Pekka Mäkinen, formaður finnsk-íslenska verslunarráðsins og Inga Hlín Pálsdóttir frá Íslandsstofu.

 

Íslandsstofa skipuleggur þátttöku Íslands í ferðakaupstefnunni MATKA í Finnlandi með fimm íslenskum fyrirtækjum. Kaupstefnan sem hófst í morgun er sú stærsta sinnar tegundar í Norður-Evrópu.
Íslensku fyrirtækin sem taka þátt ásamt Íslandsstofu eru Iceland Travel, Reykjavík Excursions, Grayline, Elding Hvalaskoðun og Snæland.
Hafa þau öll tekið þátt í þessari sýningu um margra ára skeið.
Íslandsstofa og Icelandair skipta með sér sýningarsvæði.

Að jafnaði sækja MATKA um 1000 sýnendur frá 80 löndum, auk almennra gesta. Fyrstu tveir dagar kaupstefnunnar eru aðeins ætlaðir fagaðilum (B2B) en seinni tvo dagana verður opnað fyrir almenningi. 
Daginn áður en kaupstefnan hófst, þann 20. janúar, var haldið „Global Workshop“, vinnustofa með leiðandi erlendum ferðaskrifstofum frá yfir 25 löndum. Hátt í 200 kaupendur sóttu vinnustofuna og létu íslensku þátttakendurnir vel af henni. 

Mikill vöxtur hefur verið í beinu flugi milli Íslands og Helsinki. Í upphafi var þetta einungis sumarákvörðunarstaður en núna er boðið upp á flug allt árið og gert er ráð fyrir tveimur flugferðum á dag, allt næsta sumar.
Fjöldi ferðamanna frá Finnlandi hefur aukist um 35% frá árinu 2009.

 

Mynd 1: Hallgrímur Lárusson frá Snæland til vinstri og Sigridur Hrönn Gunnarsdóttir og Inga Sigursveinsdóttir frá Iceland Travel til hægri.
 
Mynd 2: Andri Kristjánsson frá Reykjavík Excursions og Sara Sigmundsdóttir og Saga Alexandra Sigurðardóttir frá Eldingu 

Deila