Loading…

Ísland heiðursgestur á einum elsta jólamarkaði heims

Ísland heiðursgestur á einum elsta jólamarkaði heims

22. nóvember 2017

Ísland er heiðursgestur á hinum árlega jólamarkaði í Strassborg. Markaðurinn er bæði einn sá stærsti og sá elsti sinnar tegundar í Evrópu, en þangað sækja að jafnaði um tvær milljónir gesta.

Ísland er heiðursgestur á hinum árlega jólamarkaði í Strassborg. Markaðurinn er bæði einn sá stærsti og sá elsti sinnar tegundar í Evrópu, en þangað sækja að jafnaði um tvær milljónir gesta.
Strassborg er þekkt sem ein að höfuðborgum Evrópusambandsins en borgin er einnig kunn fyrir jólamarkað sinn enda meðal þeirra elstu í heimi eða 447 ára gamall en hann var fyrst haldinn árið 1570.

Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Frakklandi standa fyrir landkynningarverkefni í tengslum við þátttöku Íslands á markaðnum með það að markmiði að kynna íslenskar vörur, mat og menningu. Slegið hefur verið upp íslensku jólaþorpi þar sem íslensk fyrirtæki kynna vörur sínar fyrir gestum og gangandi.

Íslensku fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu eru Bæjarins Bestu, Hekla Ísland, Handprjónasambandið, Heilsukokkur, Ice-Co, Ice Wear, Iceland Treasures, Lýsi, Reykjavík Distillery, Skinboss og Urð.

Fjölbreytt menningardagskrá

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun standa fyrir fjölmörgum menningarviðburðum þann rúma mánuð sem markaðurinn stendur yfir. Íslandsstofa hefur veg og vanda að kynningu á íslenskum matvælum og matarmenningu og mun til að mynda matreiðslumeistarinn Viktor Örn Andréssons, bronsverðlaunahafi Bocuse d‘Or þessa árs, reiða fram rétti úr íslensku hráefni fyrir franska fjölmiðla í litla eldhúsi Íslandsstofu sem hefur síðustu ár farið víða um lönd í kynningarstarfi sínu fyrir Ísland og íslenskar afurðir.

Íslenska dagskráin hefst með opnunartónleikum í dómkirkjunni 25. nóvember þar sem messó sópran söngkonan Sigríður Ósk Kristjánsdóttir og söngvaskáldið Svavar Knútur stíga á stokk og syngja vel valin jólalög. Íslenskar bókmenntir og hið séríslenska jólabókaflóð verða í forgrunni mánudaginn 27. nóvember í Kléber bókabúðinni þar sem rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir og Oddný Eir munu ræða um viðfangsefnið, umræðum stýrir Bjarni Benedikt Björnsson.

Dagana 13. og 14. desember verða tónleikar með Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Einnig verður kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson sýnd í Cinema Star kvikmyndahúsinu en hún fékk verðlaunin „Un Certain Regard“ á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2015.

Íslandsstofa er framkvæmdaaðili verkefnisins en aðstandendur þess eru utanríkisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Deila