Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. júní 2020

Ísland býður gestum heim í nýju landkynningarmyndbandi

Ísland býður gestum heim í nýju landkynningarmyndbandi
Nýtt landkynningarmyndband fyrir áfangastaðinn Ísland var frumsýnt í dag.

Myndbandið er hluti af markaðsverkefninu Ísland – saman í sókn sem nýlega var hleypt af stokkunum. Í myndbandinu er farið yfir helstu kosti Íslands sem áfangastaðar, frelsið sem við búum við, fallega náttúru, víðerni, frábæra veitingastaði og fjölbreytta afþreyingarmöguleika. Eftir erfiða tíð er fólk hvatt til að ferðast til Íslands þar sem það getur endurnært sál og líkama.

Samstarf fjölmargra aðila

Fjölmargir aðilar komu að vinnslu myndbandsins. Skot sá um tökur og framleiðslu í samstarfi við Peel. Leikstjórn var í höndum Allans Sigurðssonar, Unnsteinn Manúel Stefánsson samdi tónlistina, og Salka Sól Eyfeld annaðist raddsetningu.

Alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi og íslenska auglýsingastofan Peel stýra stefnumörkun, hugmyndavinnu, almannatengslum, hönnun og framleiðslu markaðsefnis fyrir verkefnið en Íslandsstofa sér um framkvæmd þess. Átakið er fjármagnað af íslenska ríkinu og er hluti af víðtækum efnahagsaðgerðum vegna COVID-19.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir: „Þetta myndband markar upphafið að nýrri sókn okkar Íslendinga á ferðamannamarkaði í kjölfarið á tilslökunum á ferðatakmörkunum. Nú snýr það að okkur að taka vel á móti öllum þeim sem ákveða að heimsækja landið. Ég vil þakka öllum sem koma að markaðsátakinu fyrir að gera því mjög góð skil sem við höfum fram að færa: óviðjafnanlega náttúru, frábært samfélag og einstök víðerni. Þetta er upplifun sem fæst hvergi annars staðar og í því felast sóknarfæri okkar.“

Myndbandið er fyrsta aðgerð af mörgum til að byggja upp öflugt markaðsverkefni í ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsgreina. Frekari aðgerðir verða kynntar á næstu vikum, eftir því sem staða mála í helstu viðskiptalöndum Íslands tekur að skýrast betur og samgöngur komast í eðlilegra horf. Framundan er kraftmikil markaðssókn fyrir Ísland enda miklir efnahagslegir hagsmunir í húfi fyrir land og þjóð.

 

Deila