Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
19. október 2016

Inspired by Iceland sópaði að sér verðlaunum á hinni virtu Euro Effie auglýsingaverðlaunahátíð

Inspired by Iceland sópaði að sér verðlaunum á hinni virtu Euro Effie auglýsingaverðlaunahátíð
Markaðsherferðin Ask Guðmundur hlaut fimm Euro Effie verðlaun við hátíðlega athöfn í Brussel í gærkvöldi.

Markaðsherferðin Ask Guðmundur hlaut fimm Euro Effie verðlaun við hátíðlega athöfn í Brussel í gærkvöldi. Verðlaunin eru veitt fyrir árangursríkustu auglýsingar ársins. Herferðin var alls tilnefnd í fjórum flokkum, en vann þar að auki aðalverðlaun kvöldsins, Grand Prix, fyrir bestu herferð ársins. Ask Guðmundur herferðin er hluti af landkynningarverkefninu Inspired by Iceland, en herferðin var gerð af Íslensku auglýsingastofunni og The Brooklyn Brothers í London. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili Inspired by Iceland.

Euro Effie verðlaunin eru ein virtustu auglýsingaverðlaun heims. Þetta var í 20. sinn sem þau voru veitt. Dómnefndin var skipuð reynslumiklu fagfólki á sviði markaðssetningar og auglýsingagerðar. Auk Inspired by Iceland kepptu auglýsingaherferðir fyrir mörg af þekktustu vörumerkjum heims um Euro Effie verðlaunin. Þar á meðal má nefna Volvo, MasterCard og Hyundai. Fá landkynningarverkefni hafa náð viðlíka árangri. Áður hefur Inspired by Iceland unnið til Euro Effie verðlauna árin 2011 og 2013, Inspired by Iceland fékk einnig Grand Prix verðlaunin 2011 og er þetta í fyrsta skipti sem sama vörumerki fær verðlaunin tvisvar.

Ask Guðmundur var tilnefnd í fjórum ólíkum flokkum:

 • Besti sýnilegur árangur óháð miðli
  Herferðir birtar í ólíkum miðlum með sama eða sambærilegum árangri óháð miðli
 • David Vs Goliath
  Litlar herferðir í samkeppni við stór fyrirtæki og vörumerki
 • Afþreying og skemmtun
  Herferðir sem markaðssetja ferðaþjónustu, afþreyingu og skemmtu
 • Minna fjármagn
  Herferðir sem hafa sýnt fram á árangur þrátt fyrir tiltölulega lágar framleiðsluupphæðir.

Markmið herferðarinnar Ask Guðmundur var að hvetja ferðamenn til að ferðast víðar um landið á meðan á heimsókn þeirra stendur. Ferðamenn gátu nýtt samfélagsmiðla til að spyrja spurninga um Ísland. Sjö einstaklingar sem allir bera nafnið Guðmundur eða Guðmunda sáu um að svara. Hver landshluti tefldi fram sínum eigin „Guðmundi“ sem svaraði spurningum tengdum sínu svæði.

Áhugafólk um Ísland fékk þannig persónulegar ábendingar um íslenska náttúru, hefðir og siði, í stað þess að fá upplýsingar frá leitarvélum á borð við Google. Alls bárust yfir 1000 spurningar frá meira en 50 löndum víðs vegar um heiminn. Rúmlega 100 þessara spurninga var svarað með myndböndum sem dreift var á samfélagsmiðlum. Myndböndin má sjá á YouTube-rás Inspired by Iceland.

Hér að neðan má sjá starfsmenn Íslensku auglýsingastofunnar, ásamt fulltrúa frá Íslandsstofu, taka á móti verðlaununum.
 


 

 

Deila