Loading…

Ímynd Íslands mikilvæg í markaðsstarfi fyrir útflutning

Ímynd Íslands mikilvæg í markaðsstarfi fyrir útflutning

29. apríl 2019

Ársfundur Íslandsstofu fór fram í Norðurljósasal Hörpu fyrr í dag.

Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Íslandsstofu ávarpaði gesti. Hann sagði mikið og spennandi starf framundan hjá Íslandsstofu og vísaði þar í vinnu tengda stefnumótun fyrir aukningu útflutningstekna sem er í fullum gangi. Hann sagði ljóst að tækifærin liggi víða, „bæði í okkar hefðbundnu útflutningsgreinum, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, orkuháðum iðnaði og alþjóðageiranum þar sem mikil gróska er í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Þá eru menningarstarfsemi og skapandi greinar í mikilli sókn.“

Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hélt erindi og þakkaði þar Jóni Ásbergssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Íslandsstofu, hjartanlega fyrir vel unnin störf í þágu útflutnings á liðnum árum. Ræddi hann þá grósku sem ríkt hefur í útflutningsverslun Íslendinga síðustu ár. Sagði hann vendipunktinn í þeirri velgengni hafa verið þegar EES samningurinn tók gildi fyrir 25 árum og markaðir Evrópu opnuðust, ásamt ýmsum umbætum sem urðu til á laga- og samkeppnisumhverfi, bæði fyrir neytendur og atvinnulífið. Þá sagði hann framtíðarhorfur íslenskrar útflutningssögu velta á áframhaldandi samstarfi innan Evrópska Efnahagssvæðisins:„Ný lífskjarasókn fyrir næstu kynslóðir felst í því að opna nýja markaði en ekki að loka þeim sem fyrir eru. Ný lífskjarasókn fyrir næstu kynslóðir felst í því hafa áfram nánast óheftan aðgang að okkar kjölfestumarkaði um leið og við leitum nýrra tækifæra á vaxandi mörkuðum. Ný lífskjarasókn felst í því að íslensk fyrirtæki geta áfram keppt og þróast á kjölfestumarkaði sínum á jafnræðisgrundvelli og notað samkeppnishæfni sína til að sækja fram á nýjum mörkuðum. Ný lífskjarasókn mun byggja á því að unga fólkið okkar geti áfram sótt sér þekkingu og reynslu á grundvelli þeirra réttinda sem það nýtur samkvæmt EES-samningnum.“

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu sagði frá breytingum í starfsemi Íslandsstofu á liðnu ári. Kynnti hann ársreikning ársins 2018 og fjárhagsáætlun næsta árs. Þá greindi hann frá stöðu stefnumótunarvinnu fyrir útflutningsgreinar, en þegar hafa farið fram vinnustofur um stefnumótunina víða land og framundan eru vinnustofur á Höfuðborgarsvæðinu með hinum ýmsu atvinnugreinum. Að lokum kynnti Pétur niðurstöður nýrrar viðhorfs- og vitundarrannsóknar meðal neytenda á völdum markaðssvæðum. Niðurstöður leiddu m.a. í ljós að aðspurðir voru að jafnaði með jákvætt viðhorf gagnvart vörum af íslenskum uppruna. Að því sögðu kvaðst 70% viðmælenda ekki geta nefnt neina íslenska vöru á nafn, en þar eru greinilega sóknarfæri, að sögn Péturs. Þá kom fram að yfir 70% aðspurðra voru jákvæðir gagnvart því að ferðast til Íslands. Hins vegar töldu færri líklegt að þeir myndu ferðast til Íslands á næstu 12 mánuðum, sem er í samræmi við forspár um fjölda ferðamanna til Íslands á komandi tíð. Hér má sjá heildarniðurstöður.  

Fimm konur úr atvinnulífinu komu fram á örmálstofu um ímynd Íslands og þátt hennar í markaðsstarfi fyrir útflutning. Í málstofunni sem bar heitið „Vegsemd þess og vandi að vera Íslendingur“ tóku þátt þær Alda Hlín Karlsdóttir hjá Skaganum 3X, Birna Ósk Einarsdóttir hjá Icelandair, Bjarney Harðardóttir frá 66°Norður, Halla Helgadóttir frá Hönnunarmiðstöð og Sara Lind Þrúðardóttir frá Icelandic. Skiptust frummælendur á skoðunum um hvernig nýta megi ímynd Íslands í markaðssetningu á Íslandi og íslenskum vörum og þjónustu. Meðal þess sem fram kom var að gæta þarf samræmis í markaðssetningu á erlendri grund og hafa skilaboðin skýr. Framsögumenn voru sammála um mikilvægi þess að gera uppruna íslenskra matvæla og annarra vara hátt undir höfði. Þá væri nauðsynlegt að hampa sérstæðu Íslands og gæðum, fremur en einblína um of á magnsölu.

Fundarstjóri var Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri hjá Íslandsbanka.

Hér má skoða vef ársskýrslu Íslandsstofu 2018


Deila