Loading…
19. september 2019

Húsfyllir á stofnfundi um loftslagsmál og grænar lausnir

Húsfyllir á stofnfundi um loftslagsmál og grænar lausnir
Stofnfundur Samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir var haldinn í dag. Húsfyllir var á fundinum og leyndi áhugi hátt í tvö hundruð fundarmanna á málefninu sér ekki.

Í ávarpi sínu á fundinum sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, m.a.:  “Mannkynið er í kapphlaupi við tímann en farsæld þjóða til framtíðar mun ráðast af því hvernig þeim tekst að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu og ná árangri í baráttunni gegn loftslagsvánni. Þá mun líka skipta miklu máli hvernig samfélög takast á við afleiðingar þeirra loftslagsbreytinga sem munu verða. Í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda þurfum við að lágmarka kolefnisspor þeirrar vöru og þjónustu sem við bjóðum upp á, bæði hér heima fyrir og á erlendum mörkuðum. Samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um grænar lausnir er innblásinn af bjartsýnis- og sóknaranda gagnvart stórri áskorun og trú á nýsköpun.”

Halldór Benjamín Þorbergsson sagði í ávarpi sínu: “Grænar lausnir spretta upp í fyrirtækjum landsins og skapa ómæld útflutningsverðmæti. Atvinnulífið styður eindregið markmið um kolefnishlutleysi hér á landi bæði með því að draga úr losun kolefnis og að auka bindingu þess í jarðlögum og gróðri.”

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður vettvangsins, rakti hlutverk vettvangsins, sem er þríþætt. Í fyrsta lagi að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Í öðru lagi mun vettvangurinn vinna með fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði. Í þriðja lagi er vettvangnum ætlað að styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni.

Að samstarfsvettvanginum standa forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið; Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, háskólar og Íslandsstofa, auk fjölda fyrirtækja.

Samstarfsvettvangurinn er hýstur innan Íslandsstofu og vinnur í nánu samstarfi við hana.

Upptöku frá fundinum má finna á Facebook síðu Íslandsstofu


Deila