Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. ágúst 2020

Hugvitið í askana látið - Pétur Þ. Óskarsson

Hugvitið í askana látið - Pétur Þ. Óskarsson
Fyrir liggur stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning til næstu fimm ára.

Alls komu um 400 manns að vinnunni á seinasta ári með beinum hætti í gegnum fjölda vinnustofa sem haldnar voru um allt land og með fulltrúum helstu útflutningsgreina landsins.

Jákvæð ímynd Íslands á alþjóðavettvangi getur skapað umtalsverðan virðisauka fyrir íslenskan útflutning og opnað brautir inn á nýja markaði. Ef tækifærin verða nýtt mun það tryggja Íslendingum áframhaldandi góð lífskjör í náinni framtíð. Stefnumótunin byggir á eftirfarandi sex áherslum sem spanna vítt svið í íslensku atvinnulífi. Þær eru:

Orka og grænar lausnir
Hugvit, nýsköpun og tækni
Listir og skapandi greinar
Ferðaþjónusta
Sjávarútvegur
Sérhæfð matvæli og náttúruafurðir


Leiðir til að auka útflutningstekjur Íslands hafa verið teiknaðar upp og framundan eru mikilvæg verkefni.

Fjölbreytt atvinnulíf er mikilvægt hverju þjóðfélagi, ekki síst þegar áföll dynja á. Þá er mikilvægt að stoðirnar séu styrkar. Íslendingar búa svo vel að eiga öflugar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins og hafsins sem umlykur Ísland. Hugvit, nýsköpun og tækni hefur umbylt hefðbundnum greinum eins og sjávarútvegi, iðnaði, orkunýtingu og landbúnaði á síðustu áratugum. Sjálfbæra nýtingu náttúrulegra auðlinda Íslands verður að hafa í hávegum, þær auðlindir eru takmarkaðar en nýting auðlinda hugans er hins vegar ótakmörkuð.

Á síðustu áratugum hafa sprottið fram öflug nýsköpunarfyrirtæki sem hafa aukið verðmætaframleiðslu í landinu og veitt fjölmörgu fólki spennandi störf í nýjum atvinnugreinum. Össur, Marel og CCP eru öllum kunn en sprotarnir sem hafa vaxið og dafnað eru mun fleiri. Rekstrarumhverfið skiptir hér miklu og mikilvægt að Ísland sé samkeppnishæft þegar fyrirtæki í þessum geirum velja sér staðsetningu til starfseminnar. Meðal efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar til að bregðast við COVID voru breytingar sem munu hafa mjög góð áhrif á rekstrarumhverfi slíkra fyrirtækja, til skemmri og lengri tíma litið.

Íslensk erfðagreining er landsmönnum ofarlega í huga um þessar mundir enda hefur fyrirtækið ásamt stjórnvöldum leikið mikilvægt hlutverk í baráttunni við Covid-19. Fyrirtækið kom eins og stormsveipur inn í íslenskt samfélag árið 1996 og í dag njótum við afraksturs rannsókna þess og ríkulegra fjárfestinga í þekkingu í gegnum árin. Fleiri líftæknifyrirtæki hafa fylgt í kjölfarið og verður spennandi að sjá afurðir þeirra á komandi árum.

Ísland býr að sterkum innviðum. Hér er gott að búa, Ísland er öruggt land, heilbrigðiskerfið er gott, hér er frjótt og öflugt menningarlíf og jöfn staða kynjanna vekur athygli víða um heim. Framboð á menntun er fjölbreytt og háskólar landsins hafa rennt stoðum undir skapandi atvinnulíf. Þessi innri gerð samfélagsins er styrkleiki sem okkur hættir til að vanmeta. Við erum í samkeppni um fólk, ekki síst þá vel menntuðu Íslendinga sem líta á veröldina alla sem sitt atvinnusvæði og horfa til slíkra þátta þegar þeir velja hvar þeir vilja búa.

Á það hefur verið bent að nauðsynlegt er að stórauka útflutning og verðmætaframleiðslu í landinu til að standa undir framtíðarhagvexti. Fyrst og fremst til að hægt sé að standa undir þeim lífskjörum og því öfluga velferðarkerfi sem landsmenn gera eðlilegar kröfur um að búa við þegar á þarf að halda. Hvernig á að fara að því? Lífskjör Íslendinga á næstu árum og áratugum byggja ekki síst á því á því að hugvitið verði í askana látið. Að fundnar verði leiðir til að byggja sjálfbært samfélag með skapandi hugsun að vopni.

Úr grein eftir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, sem birtist í Viðskiptablaðinu 16. ágúst.


Deila