Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. mars 2014

Hugrakkasti ferðamaðurinn

Hugrakkasti ferðamaðurinn
Jennifer Asmundson frá Seattle í Bandaríkjunum hefur hlotið titilinn Hugrakkasti ferðamaðurinn. Hún var valin sigurvegari í leik sem Inspired by Iceland hefur staðið fyrir þar sem leitað hefur verið að hugdjörfum ferðalangi til þess að ferðast um landið í vikutíma undir fararstjórn rúmlega 100.000 fylgjenda Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum.

Jennifer Asmundson frá Seattle í Bandaríkjunum hefur hlotið titilinn Hugrakkasti ferðamaðurinn. Hún var valin sigurvegari í leik sem Inspired by Iceland hefur staðið fyrir þar sem leitað hefur verið að hugdjörfum ferðalangi til þess að ferðast um landið í vikutíma undir fararstjórn rúmlega 100.000 fylgjenda Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum. Þátttakan í leiknum gekk framar vonum en alls bárust rúmlega 4.500 umsóknir allstaðar að úr heiminum frá hugdjörfum einstaklingum.

Inspired by Iceland hefur undanfarið óskað eftir tillögum að skemmtilegum áfangastöðum og ævintýralegum lífsreynslum á samfélagsmiðlum sínum. Fjöldi fólks hefur brugðist við og sent inn hugmyndir sem nýttar verða til að skipuleggja sjö daga ferð um landið fyrir Jennifer Asmundson en ævintýraför hennar hefst í dag Með í för verður hópur kvikmyndagerðarmanna sem mun vinna stutta heimildamynd um ferðalagið.

Það vill svo til að Jennifer Asmundsson er af íslensku bergi brotin. Afi hennar var fæddur hér á landi, en fluttist ungur til vesturheima. „Þetta er ótrúlegt tækifæri,“ segir Jennifer. „Ég er kokkur, og afi minn var Íslendingur. Hann dó þegar ég var ung, áður en hann gat kennt mér neitt um tungumálið, eða íslenskar matarhefðir. Ég er mjög spennt að fræðast um Ísland, og læra um jarðhita og íslenskar matarvenjur og uppgötva leyndarmál Íslands frá fyrstu hendi.“

Sjálf er Jennifer þaulvanur ferðalangur en hún hefur áður ferðast víða um Evrópu, Mið-Ameríku og Eyjaálfu. Þetta er hennar fyrsta ferð til Íslands. Ferðalag Jennifer um landið verður skipulagt í samráði við fylgjendur Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum, en dagskrá hvers dags verður leyndarmál. Hægt verður að fylgjast með ferðalaginu í gegnum samfélagsmiðla Inspired by Iceland.

Leikurinn er hluti af „Share the Secret“ herferðinni sem Inspired by Iceland hefur staðið fyrir í vetur. Herferðin miðar að því að gefa ferðalöngum kost á því að kynnast leyndardómum Íslands og eru Íslendingar hvattir til að segja frá skemmtilegum ævintýrum í kringum landið sem ekki hafa notið verðskuldaða athygli ferðamanna.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu segir: „Ísland er fullt af ævintýralegum tækifærum sem fáir vita af og eru einfaldlega ekki á kortinu hjá erlendum ferðamönnum. Höfuðborgin og hver og einn landshluti býr yfir spennandi svæðum, fólki, skemmtilegri menningu, góðum mat, töfrandi slóðum og afþreyingu. Við viljum því gefa ferðamönnum tækifæri til að uppgötva íslensk ævintýri um allt land og ekki síður að gefa Íslendingum tækifæri á að benda ferðamönnum á það sem þeir ættu ekki að láta framhjá sér fara sem hægt er að upplifa allan ársins hring.

Deila