Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
28. mars 2017

Horses of Iceland tekur þátt í stærstu hestasýningu í Evrópu

Horses of Iceland tekur þátt í stærstu hestasýningu í Evrópu
Íslandsstofa stýrði þátttöku Horses of Iceland í Equitana sýningunni í Essen í Þýskalandi sem stóð yfir dagana 18.-26. mars. Um er að ræða stærstu hestasýningu í Evrópu.

Íslandsstofa stýrði þátttöku Horses of Iceland í Equitana sýningunni í Essen í Þýskalandi sem stóð yfir dagana 18.-26. mars. Um er að ræða stærstu hestasýningu í Evrópu og voru gestir um 30.000 á dag þegar mest var. Þetta er í fyrsta sinn sem markaðsverkefnið Horses of Iceland tekur þátt í alþjóðlegri sýningu sem þessari, en Íslandshestasamtökin í Þýskalandi og íslensk fyrirtæki hafa verið með um árabil.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti sýninguna og fundaði með þýsku samtökunum og ræddi m.a. um ávinning þess að allir sameinuðust í kynningarstarfi íslenska hestsins um heim allan. Ráðherrann opnaði formlega fyrir sölu á miðum á Landsmót 2018 sem haldið verður í Reykjavík í byrjun júlí.

Meðan á sýningunni stóð var tilkynnt um þátttöku fyrsta þýska aðilans í verkefninu, en það er Müllers Hoff Islandpferde. Nana Degenhardt sem rekur Müllers Hoff hefur meira en 30 ára reynslu af þjálfun íslenskra hesta og er með kennslu, ferðaþjónustu og ræktun á búgarði sínum.

Gestir fjölmenntu á básinn og beið fólk í röðum til að fá að horfa á íslenska hestinn í 360° myndbandi sem hægt var að skoða í sýndarveruleikagleraugum. Flestir höfðu aldrei upplifað slíkt, en hægt var að skoða hestana í Kolbeinsdal og í Laufskálarétt, kíkja inn í glugga sem sýndu hestinn á ólíkum árstímum og hesta í íslenskri náttúru í Norðurljósadansi. Spurt var um hestaferðir á Íslandi og fólk tók með sér bæklinga um íslenska hestinn og póstkort. Þá var efni frá samstarfsaðilum í markaðsverkefninu dreift og sýnd myndbönd frá ræktendum og öðrum. Hægt var að skrá sig í „pott“ og voru verðlaun í boði, ferð til Íslands.

Þýsku Íslandshestasamtökin stóðu reglulega fyrir sýningum á íslenska hestinum í gerði inni á sýningarsvæðinu. Helmut Bramesfeld, heimsmeistari í 100 m skeiði sýndi æfingar þar sem hann stýrði þremur hestum án reiðtygja og gerðu þeir alls kyns æfingar. Hann beitir svokallaðri Natural Horsmanship aðferð og nær ótrúlegum tengslum við hestana með þeim hætti og bera þeir fullt traust til hans.  Sjá má video af æfingum hans á YouTube síðu Horses of Iceland.  Á samfélagsmiðlum verkefnisins var bein útsending frá sýningu Þórarins Eymundssonar sem Hrímnir bauð upp á.

Að sögn Jelenu Ohm, verkefnisstjóra Horses of Iceland verkefnisins, tókst vel til með kynningu á hestinum og markaðsverkefninu á sýningunni. Lögð var áhersla á alþjóðlegt sjónarhorn verkefnisins og að kynna ávinning þess að vera með, fyrir bæði samtök og fyrirtæki um heim allan. Íslenski hesturinn hefur numið land í 21 landi um heim allan og er það stefnan að allir geti nýtt sér samræmt kynningarefni og markaðsstarf til að auka slagkraft í kynningu á hestinum og starfsemi honum tengdri.

Deila