Loading…

Góð mæting á fund um nýja vegferð í markaðssetningu áfangastaðarins

Góð mæting á fund um nýja vegferð í markaðssetningu áfangastaðarins

11. október 2017

Yfir 200 manns komu á fund Íslandsstofu 9. október á Hilton sem bar heitið Ísland frá A til Ö – ný vegferð í markaðssetningu áfangastaðarins. Á fundinum voru kynntar niðurstöður úr nýrri markhópagreiningu ásamt nýjum áherslum í markaðssetningu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Haldnir verða fundir á landsbyggðinni á næstu vikum í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna þar sem ný vegferð í markaðssetningu áfangastaðarins Íslands verður kynnt.

Yfir 200 manns komu á fund Íslandsstofu 9. október á Hilton sem bar heitið Ísland frá A til Ö – ný vegferð í markaðssetningu áfangastaðarins. Á fundinum voru kynntar niðurstöður úr nýrri markhópagreiningu ásamt nýjum áherslum í markaðssetningu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Haldnir verða fundir á landsbyggðinni á næstu vikum í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna þar sem ný vegferð í markaðssetningu áfangastaðarins Íslands verður kynnt.

Guy Shone, forstjóri fyrirtækisins Explain the Market hélt erindi þar sem hann kynnti niðurstöður nýrrar alþjóðlegrar rannsóknar á straumum og stefnum í ferðahegðun. Niðurstöðurnar benda til þess að ferðamenn vilji í auknum mæli ferðast á nærgætinn hátt (e. considerate travel) og fræðast um umhverfi og menningu í því landi sem þeir ferðast til. Í því felst meðal annars að leggja sig fram um að eiga í samskiptum við heimafólk og læra af því, spreyta sig á tungumálinu, vilja ekki vera álitnir sem „dæmigerðir ferðamenn,“ aftengja sig frá vinnustressi o.fl. Shone benti á að þessar niðurstöður fælu í sér mikil tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Kynning Guy Shore

Næst kynntu Daði Guðjónsson, verkefnisstjóri á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu og Kári Joensen, lektor við Háskólann á Bifröst, nýja og viðamikla úttekt á markhópum íslenskrar ferðaþjónustu. Í markhópagreiningunni var lagt upp með að greina þá markhópa sem þykja hvað ákjósanlegastir fyrir íslenska ferðaþjónustu. Tilgangur og meginmarkmið verkefnisins var að þróa betri tól og tæki til að stunda hnitmiðaða og skilvirka markaðssetningu íslenskra áfangastaða á erlendum mörkuðum. Markhópagreiningin leiddi m.a. í ljós að það eru þrjár tegundir eða týpur af ferðamönnum á hverju markaðssvæði óháð búsetu þegar kemur að viðhorfum og ferðahegðun fólks. Þetta eru Lífsglaði heimsflakkarinn, Sjálfstæði landkönnuðurinn og Makindalegi menningarvitinn. Mikil verðmæti liggja í markhópagreiningunni fyrir íslenska ferðaþjónustu og eru ferðaskipuleggjendur hvattir til að kynna sér þessi gögn og nota í sinni markaðssetningu.

Kynning Daða og Kára

Markhópagreiningin

Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snæland Grímsson, hélt erindi sem bar heitið Er ekki nóg komið en þar ræddi hann m.a. þróun íslenskrar ferðaþjónustu undanfarin ár. Sagði hann að eftir mikla velgengni undanfarin ár væru nú blikur á lofti og vísaði í umræðu um greinina og stöðu hennar. Hallgrímur sagði mikilvægt að ferðaþjónustan hefði vissa kjölfestu eins og Inspired by Iceland verkefnið og að nú þyrfti að snúa bökum saman.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, fór stuttlega yfir starfið hjá Íslandsstofu sem snýr að ferðamálum og hvatti fleiri íslensk fyrirtæki til að koma að Ísland allt árið verkefninu og ítrekaði að með sameiginlegri sýn náum við betri slagkrafti. Hún ræddi áherslur í markaðsstarfi fyrir ferðaþjónustuna undir merkjum Inspired by Iceland sem snúa að því að hvetja ferðamenn til að ferðast til landsins utan háannar og til að ferðast víðar um landið, viðhalda ánægju þeirra og kenna þeim að ferðast á ábyrgan hátt. Hún hvatti jafnframt fyrirtæki til að nýta sér markhópagreininguna.

Að lokum greindi hún frá nýjum áfanga í markaðssetningu á áfangastaðnum Íslandi þar sem íslenska stafrófið og allir landshlutarnir eru í öndvegi. Sýndi hún glænýtt myndband sem notað verður til að kynna nýjan áfangann, þar sem Steindi Jr. kennir ferðalöngum að syngja erfiðasta karókí lag í heimi og vakti birtingin mikla kátínu og uppskar lófaklapp viðstaddra. Myndbandið má sjá neðst á síðunni, ásamt fleiri myndböndum sem kynna landshlutana sjö. Nánar um nýja áfangann

Kynning Ingu Hlínar

Að lokum var komið að ávarpi ráðherra ferðamála, Þórdísar Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Í ávarpi sínu kom ráðherra m.a. inn á það hvað það hvað hefði verið gaman að fylgjast með þessari vegferð í ferðamálum á Íslandi á undanförnum árum og lofaði hún einnig vandaða og vel heppnaða markaðssetningu undir merkjum Inspired by Iceland.

Myndbandið með Steinda Jr. syngja erfiðasta karókí lag í heimi

Myndband af ferðamönnum sem reyna að syngja karókí  lagið

Myndbönd A-Ö um landshlutana sjö

Hér má nálgast myndbandsupptöku frá fundinum

 

Deila