Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. janúar 2020

Fyrsta málþingið um konur í ferðaþjónustu haldið á Íslandi

Fyrsta málþingið um konur í ferðaþjónustu haldið á Íslandi
Málþing um konur í ferðaþjónustu fór fram á Hótel Sögu dagana 24. og 25. janúar sl. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi viðburður er haldinn en alls voru um 60 gestir frá 18 löndum mættir til að ræða stöðu kvenna og jafnrétti í ferðaþjónustu.

Yfirskrift málþingsins var; „Shaping a gender inclusive industry to meet the talent and leadership needs of the 21st century“. Komu gestir bæði úr röðum atvinnulífs sem og af opinberum vettvangi, m.a. forsvarsmenn úr ferðaþjónustu víða að sem og fagfólk af yngri kynslóðinni, brautryðjendur í hótel- og veitingageiranum, fulltrúar flugfélaga, auk frumkvöðla af báðum kynjum allt frá Ekvador til Líbanon. Áhersla var lögð á að fræðast um ólíkar aðferðir sem snúa að jafnrétti kynjanna og fjölbreytni almennt innan greinarinnar, einnig að þátttakendur auki skilning sinn á þörfum og væntingum kvenleiðtoga næstu kynslóðar, auk þess að skapa tækifæri til tengslamyndunar á breiðum vettvangi.

Fjöldi áhugaverðra erinda var á dagskrá þingsins. Aðalfyrirlesari var Eliza Reid, forsetafrú og sendiherra ferðamála og sjálfbærrar þróunar hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO). Í ávarpi sínu ræddi hún m.a. um það hvernig áherslan á jafnrétti kynjanna hér á landi, og ákvæði þar að lútandi í íslenskum lögum, hafi orðið landi og þjóð til framdráttar. Sýndi það sig m.a. í að landið stendur vel efnahagslega og vermir jafnan efstu sætin yfir hamingjusömustu þjóðir heims.

Á meðal annarra ræðumanna má nefna Jo Phillips, yfirmann mannauðsmála hjá skemmtisiglinga fyrirtækinu Carnival UK. Nefndi hann í sínu erindi að: „Jafnrétti kynjanna er orðinn skylduþáttur í viðskiptum – er ekki lengur eitthvað sem bara ‘ætti að vera í lagi’“.

Zina Bencheikh frá stærsta ferðaskipuleggjanda heims, PEAK DMC, tók undir með Phillips og sagði jafnframt mikilvægt að hafa sterkar konur í forsvari ferðaþjónustunnar – sem gætu verið komandi kynslóðum kvenna í faginu innblástur og fyrirmyndir.

Í erindi sínu lýsti stofnandi málþingsins, Alessandra Alonso frá Women in Travel, ánægju sinni með viðburðinn nú . Greindi hún frá því að áfangastaður næsta þings sem haldið verður 2021, hafi þegar verið ákveðinn en það verður í Marrokkó. Ætlunin þar er m.a. að halda áfram með leiðbeinanda fyrirkomulag sem komið hefur verið á fót og halda áfram að efla krafta framtíðarleiðtoga í ferðaþjónustu.

Málþingið var haldið í samstarfi Íslandsstofu, Women in Travel CIC, Carnival UK og Peak DMC.


Deila