Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
5. nóvember 2018

Forsetafrú ræðir stöðu kvenna og ferðaþjónustu í London

Forsetafrú ræðir stöðu kvenna og ferðaþjónustu í London
Eliza Reid, forsetafrú talar á ráðstefnu um konur og ferðaþjónustu á ferðakaupstefnunni World Travel Market sem hefst í dag.

Ferðakaupstefnan er ein sú stærsta í heiminum og fer fram dagana 5. til 7. nóvember í London. Forsetafrú er ein af sendiherrum ferðamála og sjálfbærrar þróunar hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO). Umræðurnar um konur og ferðaþjónustu fara fram í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því breskar konur fengu kosningarétt en jafnframt til að vekja athygli á réttindabaráttu kvenna í dag. Jafnréttismál tengjast einnig starfsemi Ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem leggur meðal annars áherslu á að ferðaþjónusta bæti líf kvenna og stúlkna í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

World Travel Market ferðakaupstefnan er ein sú mikilvægasta fyrir íslenska ferðaþjónustu til að byggja upp og styrkja viðskiptasambönd. Yfir 50.000 fagaðilar sækja WTM á hverju ári. Íslandsstofa skipuleggur þátttöku á Íslandsbásnum og í ár tekur 21 íslenskt fyrirtæki þátt; ferðaskrifstofur, hótel, afþreyingarfyrirtæki og flugfélag, auk Markaðsstofu Norðurlands og Markaðsstofu Vesturlands.

María Björk Gunnarsdóttir hjá Íslandsstofu: „Við finnum fyrir miklum áhuga á þeim straumum og stefnum sem íslensk ferðaþjónusta hefur verið að marka síðastliðin misseri með áherslu á sjálfbæra ferðaþjónustu og ábyrga ferðahegðun. Nýjustu markaðsáherslur hafa einnig fengið góðar viðtökur þar sem að íslenska stafrófið er nýtt sem leiðarvísir til að kynna land og þjóð undir merkjum Inspired by Iceland.“


Frekari upplýsingar veita

María Björk Gunnarsdóttir
Verkefnastjóri, ferðaþjónusta og skapandi greinar
Netfang: maria@islandsstofa.is
Sími: 899 0955

Inga Hlín Pálsdóttir
Forstöðumaður, ferðaþjónusta og skapandi greinar
Netfang: inga@islandsstofa.is
Sími: 824 4375

Deila