Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. janúar 2011

Fjölsóttur vinnufundur í St. Pétursborg

Hópur 18 íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hélt vel heppnaðan vinnufund í St. Pétursborg sl. þriðjudag. Fundurinn var haldinn í samvinnu við Færeyinga og Grænlendinga og sá Airtouch í Helsinki um skipulagið í samstarfi við Travel Trade Gazette í Moskvu.

Á fyrri hluta fundarins mættu um 50 blaðamenn og forsvarsmenn stærri ferðaskrifstofa og á seinni hlutann komu um 150 fulltrúar rússneskra fyrirtækja. Ljóst er að í St. Pétursborg er mikill markaður óplægður þar sem áhugi var mikill og að mörgu spurt.

Fulltrúar Íslandsstofu og Sendiráðs Íslands í Moskvu voru á staðnum bæði til að kynna Ísland almennt og eins til að greiða úr spurningum varðandi vegabréfsáritanir og öðrum atriðum því tengdu. Virðast kynningarfundir af þessu tagi vera góð leið til að ná beint til helstu söluaðilanna og skila hvað bestum árangri í markaðssetningu landsins.

Deila