Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
17. desember 2015

Fjölbreytilegur sýnileiki Íslands í umfjöllun

Fjölbreytilegur sýnileiki Íslands í umfjöllun
Það hyllir undir lok viðburðaríks árs hjá Íslandsstofu þar sem góður árangur hefur náðst í að skapa umfjöllun um Ísland sem áfangastað til viðbótar við þá vinnu sem aðrir sinna. Árangur af starfi ferðaþjónustunnar er sennilega sjaldnast eins sýnilegur og þegar verðlaun eru afhent frá áhrifamiklum miðlum eins og til dæmis Lonely Planet.

Það hyllir undir lok viðburðaríks árs hjá Íslandsstofu þar sem góður árangur hefur náðst í að skapa umfjöllun um Ísland sem áfangastað til viðbótar við þá vinnu sem aðrir sinna. Árangur af starfi ferðaþjónustunnar er sennilega sjaldnast eins sýnilegur og þegar verðlaun eru afhent frá áhrifamiklum miðlum eins og til dæmis Lonely Planet. Raunar er fjölbreytileiki umfjöllunar um Ísland á pari við íslenska náttúru – umfjöllun birtist um allan heim, í allskonar miðlum.

Á árinu hefur Lonely Planet veitt Íslandi tvenn verðlaun, í júní var það Akureyri sem var valin #1 Best Places in Europe 2015 og í nóvember fékk Vesturland álíka heiður þegar það varð fyrir valinu sem eitt af bestu svæðunum fyrir 2016.

Útnefningar sem þessar hafa jafnan mikil áhrif. Fulltrúi Lonely Planet hefur tjáð Íslandsstofu að ferðahandbók Lonely Planet um Ísland, Lonely Planet Iceland Travel Guide, sé söluhæsta bók fyrirtækisins í Bandaríkjunum og sú fjórða söluhæsta í Bretlandi. Á Amazon er Íslandsbókin sú áttunda söluhæsta í Kindle versluninni sem stendur og því má vera ljóst að eftirspurnin er töluverð eftir Íslandi.

Það virðist reyndar eiga við um Pinterest og Instagram líka. Í nýlegri frétt Mashable kemur fram að Ísland er þriðja algengasta viðfangið á Pinterest fyrir Bandaríkjamarkað.

Deila