Loading…

Fjallað um markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu á fundi Íslandsstofu

Fjallað um markaðssókn í íslenskri ferðaþjónustu á fundi Íslandsstofu

13. febrúar 2019

Yfir 150 manns sátu fund Íslandsstofu um markaðssókn í ferðaþjónustu sem fór fram síðdegis í gær á Grand hótel Reykjavík.

Á fundinum sem bar yfirskriftina Sterkari saman í ferðaþjónustu" var farið yfir helstu verkefni og samstarf innan ferðaþjónustu á Íslandi.
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu ávarpaði gesti og greindi frá nýjum lögum um Íslandsstofu og skipuriti sem tók gildi í nóvember síðastliðnum.
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu fór yfir helstu verkefni í markaðssókn ferðaþjónustunnar og sagði frá áherslum í markaðsstarfi Íslandsstofu sem snýr að áfangastaðnum Íslandi.
Hér má nálgast kynningu Ingu Hlínar

Grétar Már Garðarsson, viðskiptastjóri flugfélaga hjá Isavia kynnti samstarf Isavia og Íslandsstofu við flugfélög. Í erindi hans kom m.a. fram að mikið vatn hefur runnið til sjávar í flugumhverfi á Íslandi undanfarin ár. Íslensku flugfélögin tvö voru árið 2005 þau einu sem buðu upp á heilsársflug til landsins, en í fyrra voru þau orðin 10 talsins. Þá fer hlutdeild erlendra flugfélaga í flugi til landsins hækkandi. Árið 2015 voru þau með 28% af öllum komum og brottförum til landsins en á síðasta ári var hlutfallið komið upp í 35%. Núna eru því „fleiri egg í körfunni“ sem leiðir til þess að áhættan er minni og dreifist á fleiri aðila, að sögn Grétars.
Hér má nálgast kynningu Grétars

Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður hjá Markaðsstofu Reykjaness ræddi um áfangastaðaáætlanir, samstarf og markaðssetningu á vegum Markaðsstofa landshlutanna. Í máli sínu lagði Þuríður áherslu á mikilvægi samstarfs innan ferðaþjónustu á Íslandi. Nefndi hún í því samhengi samvinnu milli Markaðsstofanna sex annar vegar og samstarf við Íslandsstofu hins vegar, en það felur m.a. í sér upplýsingagjöf um landshlutana, sameiginlegt skipulag fjölmiðlaferða og þátttöku í ferðasýningum erlendis, svo eitthvað sé nefnt.
Hér má nálgast kynningu Markaðsstofa landshlutanna

Að lokum kom María Björk Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu og kynnti niðurstöður viðhorfskönnunar sem gerð var nýverið meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu. Í niðurstöðum kom m.a. fram að 57% svar­enda upp­lifðu svipaða eða aukna sölu í Íslands­ferðum í fyrra miðað við árið á und­an. Þó svo að dregið hafi úr væntingum í sölu Íslandsferða miðað við sama tíma í fyrra, gera engu að síður 71% þátttakenda ráð fyrir svipaðri eða aukinni sölu á ferðum til Íslands í ár. Mest hefur dregið úr væntingum meðal þátttakenda frá Norður-Ameríku en væntingar söluaðila frá Norðurlöndunum eru aftur á móti betri en fyrir ári síðan. Þá kom einnig fram að verðlag og gengi eru þau atriði sem er­lend­ir söluaðilar Íslands­ferða líta hvað oft­ast nei­kvæðum aug­um. Jákvæða hliðin er þó að þeim fer stöðugt fjölg­andi sem mæla með Íslandi sem áfangastað. Falleg náttúra og öryggi landsins eru meðal þess sem kemur hvað oftast fram þegar spurt er um ástæðu þess að mæla með Íslandi sem áfangastað.

Hér má nálgast kynningu Maríu
Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar í heild

Hér má sjá upptöku frá fundinum


Deila