Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. október 2019

Fimm íslensk fyrirtæki á SaaStock - CrankWheel hlutskarpast í söluræðukeppni

Fimm íslensk fyrirtæki á SaaStock - CrankWheel hlutskarpast í söluræðukeppni
Fimm íslensk hugbúnaðarfyrirtæki tóku á dögunum þátt í SaaStock– ráðstefnunni sem fram fór í Dyflinni. Eitt þeirra, CrankWheel, gerði sér lítið fyrir og sigraði söluræðukeppni ráðstefnunnar.

Ráðstefnan SaaStock fór fram dagana 14. – 16. október sl. en hana sækir að jafnaði fjöldi frumkvöðla, fjárfesta og fyrirtækja, sem á það sammerkt að beina sjónunum að B2B-viðskiptum með hugbúnað í áskrift (e. Software as a Service (SaaS)). Þetta var í fyrsta sinn sem Íslandsstofa stendur fyrir bás með íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum á þessum viðburði en íslenski hópurinn samanstóð af fulltrúum eftirtalinna fyrirtækja; 2way, AwareGo, CrankWheel, Data Dwell og Kara Connect.

Auk þess að taka þátt í sjálfri ráðstefnunni tóku íslensku fyrirtækin einnig þátt í Startup Day prógrammi í tengslum við hana. Þá gátu þau einnig tekið þátt í tengdri keppni í söluræðum (e. pitch competition) sem eitt íslensku fyrirtækjanna, CrankWheel, gerði sér lítið fyrir og sigraði.

Fremst í hópi 127 sprota

Alls tóku 127 sprotafyrirtæki þátt í fyrstu umferð söluræðukeppni sem hófst daginn fyrir sjálfa ráðstefnuna. Alls fengu 24 þátttakenda að spreyta sig öðru sinni eftir að ráðstefnan var hafin þar sem fjögur fyrirtækjanna voru síðan valin áfram í úrslit sem fóru fram á stóra sviðinu á lokadegi ráðstefnunnar. Þar gerði CrankWheel sér lítið fyrir og varð hlutskarpast en Jói Sigurðsson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda, tók þar þátt fyrir hönd fyrirtækisins.

Aðspurður um þátttökuna í ráðstefnunni sem og keppninni segir Jói;

„Þetta var góð ráðstefna fyrir okkur, við höfum verið með bás einu sinni áður á SaaStock en í ár var hún mikið stærri, og það var frábært að fara með stuðningi Íslandsstofu og vera í hópi annarra íslenskra fyrirtækja, það var mikill stuðningur innbyrðis í hópnum. Það var ekki ætlunin hjá mér að taka þátt í söluræðukeppninni, en Gilsi meðstofnandi minn, sem er sölumaður í húð og hár, minnti mig bara á að miði er möguleiki svo ég sló til, og er auðvitað mjög ánægður að hafa gert það. Peningaverðlaunin, umfjöllunin og tengingar sem skapast af keppninni eiga eftir að nýtast okkur vel.“

Verðlaunin samanstóðu af peningaverðlaunum upp á 25 þúsund dali, auk inneigna hjá bæði kunnu markaðsfyrirtæki og sérhæfðri lögfræðistofu í þessum geira, auk veglegrar umfjöllunar í SaaS Mag sem er vel þekkt í áskriftarhugbúnaðargeiranum.

CrankWheel er hugarfóstur æskuvinanna Jóa og Þorgils Sigvaldasonar, en fyrirtækið stofnuðu þeir árið 2015 þegar Jói var nýhættur hjá Google, en hann starfaði lengi fyrir fyrirtækið í Kanada og frá Íslandi. CrankWheel býður skjádeililausn sem er mun aðgengilegri en hefðbundin veffundakerfi – sem nýst hefur vel í hvers kyns sölustarfi – þar sem með lausninni er með einföldum hætti hægt að deila skjá með einum smelli og þannig spara ófá sporin. Í dag eru notendur lausnar fyrirtækisins hátt í 50 þúsund talsins í öllum heimsálfum og fjölgar óðum. (Sjá einnig nánar um málið hér).

 

Deila