19. október 2023

Yfir 600 gestir sóttu Vestnorden ferðakaupstefnuna

Ljósmynd

Yfir 600 gestir mættu á Vestnorden dagana 17. og 18. október. Kaupstefnan var með öðru sniði en undanfarin ár með það markmið að minnka kolefnisfótsporið en um leið gefa þátttakendum aukna upplifun af löndunum þrem.

Ferðakaupstefnan Vestnorden fór fram í 38. skiptið í Reykjavík dagana 17. og 18 október. Kaupstefnan er samstarfsverkefni Íslands, Færeyja og Grænlands undir hatti NATA, North-Atlantic Tourism Association. Alls sóttu rúmlega 600 gestir kaupstefnuna að þessu sinni, þar af kaupendur frá um 30 löndum víðsvegar að úr heiminum.

Lína Petra Þórarinsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, settti ferðakaupstefnuna Vestnorden að morgni 17. október í Laugardalshöllinni.

Vestnorden er mikilvægasti vettvangur viðskipta í ferðaþjónustu á Norður – Atlantshafssvæðinu. Á kaupstefnunni koma saman ferðaþjónustufyrirtæki frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaþjónustuaðilum sem sækja kaupstefnuna.

Samhliða kaupstefnunni fóru einnig fram fundir á vegum NATA þar sem unnið var að því að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Grænland, Ísland og Færeyjar og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins. Ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum eða á Grænlandi. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við NATA.

Í ár voru gerðar töluverðar breytingar á ferðakaupstefnunni með það að markmiði að minnka kolefnisfótsporið en um leið gefa þátttakendum aukna upplifun af löndunum þremur. Notast var töluvert við myndefni og tækni til að auka upplifun og í stað hefðbundnar básauppröðunar þá voru sett upp þrjú landsvæði þar sem seljendur og kaupendur hittust á fyrirfram bókuðum sölufundum.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá kaupstefnunni

Sýningarhöllin á Vestnorden ferðakaupstefnunni með stóra mynd af íslenskum fossi í bakgrunni
Fulltrúar Húsavík Whale watching kynna þjónustuna á Vestnorden ferðakaupstefnunni
Séð yfir fundarborðin og þátttakendur á Vestnorden ferðakaupstefnunni í Laugardalshöll
Fulltrúar Play airline á Vestnorden ferðakaupstefnunni í Laugardalshöll
Fulltrúar Íslandsstofu á Vestnorden ferðakaupstefnunni í Laugardalshöll
Oddný Arnarsdóttir  frá Íslandsstofu kynnir íslenska ferðaþjónustu á Vestnorden ferðakaupstefnunni
Séð yfir salinn á Vestnorden ferðakausptefnunni í Laugardalshöll
Þátttakendur funda á Vestnorden ferðakaupstefnunni
Yfir 600 gestir sóttu Vestnorden ferðakaupstefnuna

Sjá allar fréttir