Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
6. maí 2016

Dagur íslenska hestsins haldinn um heim allan

Dagur íslenska hestsins haldinn um heim allan
Hestadagar voru haldnir dagana 30. apríl og 1. maí sl. Það er Landssamband hestamannafélaga sem stendur að Hestadögum í góðu samstarfi við Íslandsstofu sem kynnir Íslenska hestinn á heimsvísu í markaðsverkefni undir kjörorðinu Horses of Iceland.

Hestadagar voru haldnir dagana 30. apríl og 1. maí sl. Það er Landssamband hestamannafélaga sem stendur að Hestadögum í góðu samstarfi við Íslandsstofu sem kynnir íslenska hestinn á heimsvísu í markaðsverkefni undir kjörorðinu Horses of Iceland

Laugardaginn 30. apríl var haldin skrúðreið í miðbæ Reykjavíkur. Hópurinn safnaðist saman fyrir framan Hallgrímskirkju þar sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hélt opnunarræðu og karlakór Kjalnesinga söng nokkur lög. Því næst var riðið niður Skólavörðustíginn. Fjallkonan leiddi hópinn ásamt feðgunum Degi B. Eggertssyni og Eggerti Gunnarssyni undir fánaborg í fylgd hestvagna og reiðmanna frá ýmsum hestamannafélögum. Reiðin endaði á Austurvelli þar sem fólki gafst tækifæri á að klappa hestunum og spjalla við knapana. Frábært veður og mikil stemming var í hópnum sem gerði það að verkum að dagurinn var mjög vel heppnaður! 

Sunnudaginn 1. maí var Dagur íslenska hestsins haldinn hátíðlegur um allan heim, en íslensk hestamannafélög er nú að finna í tuttugu löndum. Eigendur íslenska hestins víðsvegar um heiminn gerðu sér glaðan dag og víða voru hestamenn með opið hús og buðu í útreiðartúra.       
Markmiðið var að kynna hestinn og hestamennsku fyrir almenningi, hafa gaman og njóta dagsins og slá á létta strengi. Upplifun dagsins var síðan deilt á samfélagsmiðlunum með myllumerkinu #horsesoficeland, ljósmyndum og myndskeiðum. Þrír munu vinna vikupassa á Landsmót hestamanna á Hólum í Hjaltadal dagana 27. júní til 3. júlí fyrir skemmtilegustu myndirnar.

Víðtækt samstarf - fjölgun þátttakenda


Miðvikudaginn 18. maí nk. kl. 9:30 – 12:00 verður haldinn annar fundur með samstarfsaðilum í verkefninu á Hótel Sögu. Ennþá er möguleiki að bætast í hóp þátttakenda og vera með.
Áhugasamir eru beðnir að hafa samband við Jelenu Ohm, verkefnisstjóra verkefnisins í síma 511 4000 eða jelena@islandsstofa.is.

Frekari upplýsingar um markaðsverkefnið má finna hér

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá Hestadögum 
 

Deila