Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. október 2019

Curio hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2019

Curio hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2019
Fyrirtækið Curio hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2019 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi fyrir fullu húsi á Grand Hótel Reykjavík í dag.

Curio er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að þróun fiskvinnsluvéla sem auka nýtingu og skila betri afurð í vinnslu á bolfiski í afhausun, flökun og roðflettingu, ásamt því að hafa öryggismál og þrif að leiðarljósi. Félagið selur 85% af vélum sínum á erlendan markað og þá helst í Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og Póllandi. Þróunarstarf félagsins hefur skilað sér í nýjum og áhugaverðum vinnsluvélum, sem hafa skilað félaginu mikilli veltuaukningu á undanförnum árum. Síðari ár hefur félagið lagt sífellt meiri áherslu á þróunarstarf og eru starfsmenn félagsins að vinna að þróun á nýrri vélalínu fyrir lax og bleikju. Prófanir eru þegar hafnar og lofa mjög góðu.  

Curio er félag sem býr að mikilli þekkingu og reynslu. Fyrstu vélar undir vörumerkinu Curio voru framleiddar af Gullmolar ehf. árið 2007 og var fyrirtækið Curio ehf. stofnað árið 2013 og tók yfir þróun og framleiðslu vélanna. Félagið er með höfuðstöðvar og þróunaraðstöðu í Hafnafirði og framleiðslu í Hafnafirði og Húsavík. Í dag starfa hjá fyrirtækinu 49 manns við þróun-, framleiðslu- og sölustörf, þar af 42 á Íslandi.

Rökstuðningur dómnefndar

Curio hefur leitt öflugt þróunarstarf sem snýr að vinnslu sjávarafurða. Félagið var framan af ekki áberandi í nýsköpunarsamfélaginu en þróunarstarf félagsins hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. Félagið hlaut m.a. árið 2018 tveggja milljón evra styrk í nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins innan Horizon 2020 og styrk frá Tækniþróunarsjóði vorið 2019 fyrir nýrri tölvustýrðri klumbruskurðarvél. 

Það er mat dómnefndar að Curio hafi þróað framúrskarandi afurðir og leggi mikla áherslu á áframhaldandi þróun véla sem hafi alla burði til að ná árangri á markaði á næstu árum og sé vel að verðlaununum komið.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaunin Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um er að ræða sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýrri tækni og hugmynd og hafi þekkingu og reynslu til að sinna framúrskarandi þróunarstarfi. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.


Deila