Loading…

„Bullandi tækifæri í Víetnam“

„Bullandi tækifæri í Víetnam“

9. nóvember 2015

Í tilefni opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Víetnam skipulagði Íslandsstofa, í samvinnu við Viðskiptaráð Víetnam (Vietnam Chamber of Commerce), tvö málþing í borgunum Hanoi og HoChiMinh, annars vegar á sviði endurnýjanlegrar orku og hins vegar á sviði stjórnunar og tæknimála í sjávarútvegi.

Undirritun samstarfssamnings milli BBA Legal annars vegar og Baker & McKenzie (Víetnam) Lt. og BMVN International Ltd. um könnun á lagaumhverfi jarðhitavinnslu. Af hálfu BBA Leagal undirrita Atli Björn Þorbjörnsson og Baldvin Björn Haraldsson. Við háborð sitja, auk forseta Íslanda og utanríksráðherra, aðstoðarforsætisráðherra Víetnam, forseti VCCI og varaiðnaðarráðherra Víetnam.

 

Í tilefni opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Víetnam skipulagði Íslandsstofa, í samvinnu við Viðskiptaráð Víetnam (Vietnam Chamber of Commerce), tvö málþing í borgunum Hanoi og HoChiMinh. Málþingin fóru fram dagana 5. og 6. nóvember og var tilgangurinn að kynna það sem Ísland hefur fram að færa, annars vegar á sviði endurnýjanlegrar orku og hins vegar á sviði stjórnunar og tæknimála í sjávarútvegi.

Fyrri daginn var fundað í Hanoi um orkumál þar sem ýmsir aðilar héldu erindi, auk forseta Íslands og utanríkisráðherra. Þar á meðal voru Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Guðmundur Ólason forstjóri Arctic Green Energy, Hafsteinn Helgason sviðstjóri viðskiptaþróunar hjá Eflu og Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík. Það helsta sem fram kom á fundinum er að vatnsorka er nú fullvirkjuð í Víetnam og þarf því að flytja inn raforku frá nágrannalöndunum. Hugur stjórnvalda stendur til aukinnar endurnýjanlegrar orku og þar sem jarðhiti er til staðar liggur vel við að kanna frekari notkun hans. Þar kemur reynsla Íslands sér vel. Einnig voru kynntir möguleikar í menntun á sviði orkumála. Þá var skrifað undir tvo samstarfssamninga á staðnum, annars vegar um stofnun græntæknifyrirtækis í Víetnam og hins vegar var gerð viljayfirlýsing um að framkvæma samanburðarrannsókn á lagaumhverfi í jarðhitavinnslu á Íslandi og í Víetnam.

Seinni daginn var boðið upp á málþing í HoChiMinh borg um sjávarútvegsmál. Þar fluttu forseti Íslands og utanríkisráðherra ávörp. Þá komu fram þeir Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel og Ari Kristinn Jónsson rektor HR, auk heimamanna.
Víetnam er einn af stærstu framleiðendum fiskmetis í heiminum. 70% af því er ræktaður fiskur og rækja en það sem veitt er kemur frá litlum bátum og verður gjarnan umtalsverð rýrnun á hráefninu á leið sinni til neytenda. Þar kemur tækniþekking frá Íslandi sterk inn og er mikill áhugi fyrir því að mynda sambönd við íslenska tækjaframleiðendur. Marel hefur verið með skrifstofu í landinu og er að vinna að tæknivæðingu fyrirtækja þar.
Einn fundarmanna hafði á orði: „Hér eru bullandi tækifæri. Það þarf bara að grípa þau“. Eiga þessi orð einnig við um möguleikana í jarðhitamálum þó þau séu skemmra á veg komin.
Á fundinum voru einnig kynntir möguleikar í menntun á sviði sjávarútvegs.

Auk ofangreindra fyrirtækja nýttu fulltrúar Tern System og Isavia tækifærið sem heimsókn forseta Íslands bauð upp á og áttu góða fundi með flugmálayfirvöldum á staðnum. Enda geta opinberar heimsóknir til landa þar sem náin tengsl eru milli atvinnulífs og stjórnvalda opnað margar dyr. 

Frá vinstri: Thuy Duong Nu Le ræðismaður Íslands í HoChiMihn, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra,  H.E. Vu Van Tam - Deputy Minister of Agriculture and Rural development, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Mr. Vo Tan Thanh - Vice president VCCI, Stefán Skjaldarson sendiherra Íslands gagnvart Víetnam.

 

Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel og fr. Thuy Duong Nu Le ræðismaður Íslands í HoChiMihn borg.

 

Forseti Íslands flytur ávarp á fundinum í HoChiMinh.

 

Deila