Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
7. október 2019

Breytt skipulag

Breytt skipulag
Nýtt skipurit hefur tekið gildi hjá Íslandsstofu. Hið nýja skipulag er unnið í kjölfar langtímastefnumótunar um útflutningsaukningu og aukinn hagvöxt sem unnið hefur verið að á vettvangi Íslandsstofu undanfarna mánuði.

Til að styðja við áherslur í nýrri stefnu er skipuritið einfaldað og Útflutningssvið og Fjárfestingasvið sameinuð. Karl Guðmundsson, sem gegnt hefur starfi forstöðumanns Útflutningssviðs, mun leiða sameinað svið. Svið kynningarmála er styrkt, með það að markmiði að vinna að þeim stefnumótandi verkefnum sem unnið verður að í kjölfar stefnumótunar í samvinnu við önnur svið Íslandsstofu.

Eftir breytingu er starfseminni skipt í tvö meginsvið og þrjú stoðsvið, auk innri þjónustu. Meginsviðin tvö eru: Áfangastaðurinn annars vegar og Útflutningur og Fjárfestingar hins vegar. Stoðsviðin þrjú sinna fjármálum og rekstri, kynningarmálum og viðskiptaþróun.  

Hlutverk sviðsins Áfangastaðurinn er að kynna Ísland sem ákjósanlegan áfangastað ferðamanna með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi í þágu íslenskrar ferðaþjónustu. Náið samstarf er við atvinnugreinina og stjórnvöld um mótun skilaboða, greiningu tækifæra og áherslna í markaðsstarfinu. Þá vinnur sviðið að kynningu á íslenskri menningu og viðburðum henni tengdri. Sviðið stýrir öðrum landkynningarverkefnum eins og við á.

Hlutverk sviðsins Útflutningur og fjárfestingar er tvíþætt; annars vegar að auka eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu hjá öllum útflutningsgreinum og greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi, hvort sem er á vörum eða þjónustu og á sviði skapandi greina. Hins vegar er það hlutverk sviðsins að laða beinar erlendar fjárfestingar til Íslands með því að kynna Ísland sem samkeppnishæfa staðsetningu, aðstoða erlenda fjárfesta við tengslamyndun og upplýsingaöflun og vinna að gerð greininga á samkeppnishæfni Íslands fyrir atvinnu- og verðmætaskapandi uppbyggingu. Sviðið sér einnig um kynningu á Íslandi sem tökustað fyrir erlend kvikmyndafyrirtæki í gegnum verkefnið Film in Iceland fyrir hönd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Sviðið  vinnur náið með atvinnulífinu og stjórnvöldum við að móta verkefni, kortleggja markaði, greina tækifæri og móta skilaboð út á markaði.  Innan sviðsins eru þarfir og möguleikar hverrar útflutningsgreinar skoðaðar sem og mögulegar aðgerðir varðandi erlent markaðsstarf og hvernig Íslandsstofa getur stutt við þær.


Deila