Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. ágúst 2017

Bein erlend fjárfesting — Alþjóðleg nýsköpun

Bein erlend fjárfesting — Alþjóðleg nýsköpun
Í huga margra Íslendinga hafa tækifæri okkar til að laða hingað erlend fjárfestingarverkefni aðallega verið bundin við stór orkuháð verkefni.

Því hefur verið haldið fram í mín eyru að í raun sé íslenskur almenningur á móti erlendri fjárfestingu. Ef grannt er skoðað ­– eins og Íslandsstofa gerði í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins í skoðanakönnun um þetta efni – kemur þó í ljós að í reynd er almenningur tiltölulega hlynntur því að erlend fyrirtæki setji upp atvinnustarfsemi á Íslandi og telja talsverðan ábata af slíkri starfsemi. Þegar upp er staðið erum við því ekki svo frábrugðin nágrannaþjóðum okkar hvað þetta varðar.

Vilja erlend fyrirtæki byggja upp atvinnulíf á Íslandi?

Ákvörðun erlendra fyrirtækja um að byggja upp starfsemi sína á tilteknu svæði ræðst oft af nálægð við stóran heimamarkað.  Ísland er sjaldnast samkeppnishæft á þessum forsendum sökum fámennis. En við höfum ýmislegt annað fram að færa: Hátt menntunarstig, góða tungumálakunnáttu, trausta innviði og viðskiptaumhverfi,  hagstæða legu milli Evrópu og Norður Ameríku, víðtæka fríverslun, m.a. við Kína, græna orku og jarðvarma með fjölda nýtingarmöguleika svo dæmi séu tekin. Og staðreyndin er sú að þau fjárfestingaverkefni sem hingað hafa komið á undanförnum árum, einkum eftir hrun, eru bæði fjölbreytt, mismunandi að stærð og gerð, auka framleiðni, skapa í flestum tilfellum nýja þekkingu og verðmætari störf.

Dæmin eru fleiri en við höldum

Við sjáum allnokkur dæmi þessa hér á landi: Dótturfyrirtæki alþjóðlegs fyrirtækis í eftirvinnslu kvikmynda hóf starfsemi sína hér á landi fyrir nokkrum árum. Starfsemin byggðist frá byrjun á alþjóðlegum verkefnum og störfum fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga.

Alþjóðlegt fiskeldisfyrirtæki setti upp starfsemi á Suðvesturlandi og hóf fullan rekstur að loknu framkvæmdatímabili með tugum starfsmanna. Markaðsaðgengi var tryggt frá byrjun og eldistækni afurðanna fullþróuð erlendis.

Á undanförnum árum hafa á þriðja tug erlendra fyrirtækja eða fjárfesta sett upp fyrirtæki á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og hafa að mati Samtaka atvinnulífsins skapað ríflega 6.000 störf með beinum hætti. Hér er, auk stærri orkuháðra verkefna, um að ræða fyrirtæki í ferðaþjónustu, upplýsingatækni, fiskeldi, grænni efnavinnslu, smáþörungarækt, rannsóknum og þróunarstarfsemi í lyfjaiðnaði, smásölu og eftirvinnslu kvikmynda. Öll eiga þessi dæmi það sameiginlegt að þau bera með sér nýja þekkingu, sem í mörgum tilfellum er erfitt að skapa á innlendum grundvelli einum og sér. Því er ef til vill meira réttnefni að kalla þá erlendu fjárfestingu sem hér um ræðir alþjóðlega nýsköpun til aðgreiningar þeirri erlendu fjárfestingu sem felur í sér fjárfestingu Íslendinga erlendis, svo ekki sé talað um fjármálavafstur í aflandsfélögum en stundum er öllu þessu blandað saman undir samheitinu erlend fjárfesting. Að mínu mati er alþjóðlega nýsköpun raunverulegt réttnefni þegar horft er til þess ávinnings sem erlend fjárfesting af þessu tagi skapar íslensku samfélagi.

Tækifærin ber að nýta

Í huga margra Íslendinga hafa tækifæri okkar til að laða hingað erlend fjárfestingarverkefni aðallega verið bundin við stór orkuháð verkefni. Samkeppnisgreiningar Íslandsstofu  benda hins vegar til að við eigum ónýtt tækifæri á ýmsum sviðum þekkingariðnaðar svo sem í líftækni, upplýsingatækni á heilbrigðissviði, áframhaldandi uppbyggingu gagnaversiðnaðar, rekstri koltrefjaframleiðslu og fjölþættri nýtingu jarðvarmans. Einnig er verulega uppsöfnuð þörf fyrir aukna erlenda þátttöku í fjárfestingum í ferðaþjónustu og áhugi erlendra fyrirtækja í þeirri grein fer hratt vaxandi. Tækifærin eru því víða og þau ber að nýta til að fjölga efnahagsstoðum hagkerfisins. Atvinnusköpun nýrra verkefna af þessu tagi er síðan þeirrar gerðar að hin alþjóðlegu nýsköpunarverkefni sem hingað koma skapa á sama tíma  verðmæt og aðlaðandi störf. Þó atvinnuleysi sé hér lítið í augnablikinu hefur eigi að síður borið á spekileka þar sem ungt vel menntað fólk hefur á undanförnum árum  í vaxandi mæli  haldið erlendis til starfa þar sem einhæf atvinnutilboð hér heima hafa ekki freistað.

Hvað þarf að gera?

Tökum höndum saman sem þjóð á sama hátt og nágrannaþjóðir okkar og helstu samkeppnislönd og setjum okkur stefnu sem byggir á jöfnu mati á mikilvægi innlendrar og alþjóðlegrar nýsköpunar fyrir uppbyggingu atvinnulífsins hér á landi. Einbeitum okkur að þeim tækifærum þar sem Ísland hefur ótvíræða samkeppnishæfni og kynnum Ísland á viðeigandi hátt í samræmi við það.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu. Höfundur er forstöðumaður fjárfestingasviðs Íslandsstofu.

Deila