Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. ágúst 2016

Ask Guðmundur tilnefnd til Euro Effie

Ask Guðmundur tilnefnd til Euro Effie

Markaðsherferðin Ask Guðmundur, sem er hluti af landkynningarverkefninu Inspired by Iceland, hefur hlotið fjórar tilnefningar til Euro Effie verðlauna fyrir áhrifaríkar auglýsingar. Áður hefur Inspired by Iceland unnið til Euro Effie verðlauna árin 2011 og 2013 fyrir áhrifaríkar auglýsingar, og hafa fá landkynningarverkefni náð viðlíka árangri.

Ask Guðmundur var samfélagsmiðladrifin herferð. Hún gerði notendum kleift að spyrja ólíka Íslendinga, sem allir bera nafnið Guðmundur eða Guðmunda, um Ísland, hefðir, náttúru og menningu. Hver landshluti tefldi fram sínum eigin Guðmundi sem sá svo um að svara þeim spurningum sem bárust. Áhugafólk um Ísland gat þannig fengið ítarlegar, raunsannar og skemmtilegar upplýsingar frá alvöru fólki. Herferðinni bárust yfir 1000 spurningar frá meira en 50 löndum víðs vegar um heiminn. Yfir 100 þessara spurninga var svarað með sérstökum myndböndum sem dreift var á samfélagsmiðlum. Myndböndin má sjá á YouTube-rás Inspired by Iceland.

Íslandsstofa annast framkvæmd Inspired by Iceland, en herferðin er unnin í góðu samstarfi við The Brooklyn Brothers í London og Íslensku auglýsingastofuna. Verkefnið byggir á samstarfi opinberra aðila og íslenskrar ferðaþjónustu.

Euro Effie verðlaunin eru ein virtustu auglýsingaverðlaun heimsins og eru nú veitt í 20. sinn. Dómnefndin er skipuð fagfólki með markaðs- og auglýsingareynslu, en aðilar dómnefndar eru gífurlega reyndir á sínu sviði. Lokaval dómnefndar byggir á hugmyndunum og útfærslu þeirra, en að langmestu á mælanlegum árangri þeirra herferða sem hljóta tilnefningu, sem aðgreinir þessi verðlaun frá öðrum auglýsingaverðlaunum. Þær kröfur eru gerðar að herferðir hafi birst í að minnsta kosti tveimur Evrópulöndum árið 2015, auk þess sem færa þarf sterk rök fyrir árangri herferðanna svo þær séu teknar til greina.

Ask Guðmundur er tilnefnd í fjórum ólíkum flokkum:

 • Best demonstration of integrated effectiveness
  Fyrir herferðir birtar í ólíkum miðlum með sama eða sambærilegum árangri óháð miðli
 • David Vs Goliath
  Fyrir herferðir sem markaðssetja sig í umhverfi þar sem samkeppni við stór fyrirtæki og vörumerki er mikil
 • Leisure & Entertainment
  Fyrir herferðir sem markaðssetja tómstundir, skemmtun, ferðalög og fleira
 • Small Budget
  Fyrir herferðir sem hafa sýnt fram á árangur þrátt fyrir tiltölulega lágar framleiðsluupphæðir.+

 

Verðlaunin verða afhent í Brussel þann 18. október næstkomandi.

Mynd frá móttöku Euro Effie 2013

 

Deila