Loading…
8. maí 2019

Allt það nýjasta og besta í sjávarútvegi kynnt í Brussel

Allt það nýjasta og besta í sjávarútvegi kynnt í Brussel
Tuttugu og sjö ár eru liðin frá því að sjávarútvegssýningarnar í Brussel, Seafood Expo Global og Seafood Processing Global, voru settar á laggirnar. Ísland hefur verið með þjóðarbás á sýningunni frá upphafi, en í ár taka samtals 29 fyrirtæki þátt á básum Íslandsstofu. Sýningin mun standa yfir frá 7.- 9. maí. 

Fyrir Íslendinga er sýningin orðin fastur liður margra aðila í greininni að sækja heim. Sýningarnar eru jafnan vettvangur alls hins besta og framsæknasta sem sjávarútvegsfyrirtæki heimsins og fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn hafa upp á að bjóða.

Að sögn Berglindar Steindórsdóttur, verkefnisstjóra hjá Íslandsstofu, fór sýningin vel af stað fyrsta daginn og var aðsókn hjá íslensku fyrirtækjunum mjög góð. Mættu fyrirtækin vel undirbúin til leiks, enda orðin vel sjóuð með margra ára reynslu.

Íslensku fyrirtækin sem taka þátt á tæknihluta sýningarinnar eru: Borgarplast, Curio, Kapp, Polardoors, Samskip, Skaginn 3X, Smyril Line Ísland, Valka og Wise. Sjávarafurðamegin eru fyrirtækin Arnarlax, Brim Seafood, Félag atvinnurekenda, G. Ingason, HB Grandi, Icelandic Asia, Isam, Ican, Ice-Co, Icelandic Export Center, Iceland Pelagic, Iceland Responsible Fisheries, Icemark, Íslandsbanki, Matorka, Menja, Novo Food, Tríton, Vísir, VSV Seafood Iceland. Að auki eru nokkur fyrirtæki á sýningunni á eigin vegum, m.a. Eimskip, Iceland Seafood, Marel, Sæplast, Samherji o.fl.

Áætlað er að yfir 29.000 gestir frá um 152 löndum muni sækja sýninguna heim í ár og eru sýnendur um 1.900 talsins.

Nánari upplýsingar veitir Berglind Steindórsdóttir, berglind@islandsstofa.is eða í síma 824-4377.


Deila