Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
27. febrúar 2014

Ákveðið að halda áfram með markaðsátak í Suður-Evrópu

Ákveðið að halda áfram með markaðsátak í Suður-Evrópu
Ákveðið hefur verið að halda áfram með sameiginlegt markaðs- og kynningarverkefni íslenskra saltfiskframleiðenda í Suður-Evrópu, sem hófst í febrúar í fyrra og hefur skilað ágætum árangri.

Ákveðið hefur verið að halda áfram með sameiginlegt markaðs- og kynningarverkefni íslenskra saltfiskframleiðenda í Suður-Evrópu, sem hófst í febrúar í fyrra og hefur skilað ágætum árangri. Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu segir áherslu hafa verið lagða á að kynna gæði og ferskleika afurða sem eiga uppruna í hreinu hafsvæði þar sem stundaðar eru ábyrgar fiskveiðar. Verkefnið er unnið á Spáni, Portúgal og Ítalíu.

Verkefnið byggir annars á þeirri meginstefnu sem mörkuð hefur verið í kynningarstarfi í sameiginlegu markaðsstarfi fyrir íslenskar sjávarafurðir hjá Íslandsstofu í gegnum Iceland Responsible Fisheries og kynningu á Íslandi  og íslenskum uppruna á erlendum mörkuðum undir yfirskriftinni „Taste and share the secret of Icelandic Bacalao."

„Markmiðið hefur verið að styrkja orðspor og ímynd íslensks saltfisks sem úrvals afurða með því að vekja athygli á íslenskum uppruna og sérstöðu sem byggir á gæðum og hreinleika. Við höfum farið óhefðbundnar leiðir, nýtt okkur markaðsstarf og almannatengsl í gegnum stafræna miðlun, myndbönd og samfélagsmiðla samhliða kynningum fyrir fjölmiðlafólk,“ segir Guðný.

Þegar hefur verið efnt til vel heppnaðra kynninga í Barcelona, Bilbao og Lissabon í samvinnu við þekkta matreiðslumenn og viðurkennda veitingastaði. Þar hefur glöggt komið í ljós að sterk hefð er á meðal neytenda fyrir neyslu á íslenskum saltfiski í þessum löndum þótt hart sé sótt að íslenskum framleiðendum með ódýrari vöru sem ekki uppfyllir sömu gæði.

Guðný segir ljóst að verkefninu verði haldið áfram a.m.k. út þetta ár en ekki sé ljóst hvað taki við að þeim tíma liðnum. „Þau viðbrögð sem við höfum þegar fengið hafa verið mjög jákvæð og áhugi fjölmiðla vekur þær vonir að hægt sé að gera enn betur,“ segir Guðný Káradóttir.

 

 

Deila