Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. júní 2011

Áhrif gjaldeyrishafta á viðskipti og fjárfestingar

Gjaldeyrishöft eru skaðleg og mikilvægt að afnema þau svo fljótt sem auðið er. Um þetta voru allir frummælendur á fjölsóttum fundi Íslandsstofu um gjaldeyrishöftin og áhrif þeirra á viðskipti og fjárfestingar sammála. Fundargestir á Hilton Nordica þann 9. júní spurðu því út í leiðir og tímasetningar.

Fjárfestar sem líta til Íslands óttast gjaldeyrishöftin. Bæði Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjalausna Arion banka og Magnús Garðarsson, forstjóri Íslenska kísilfélagsins og eigandi Tomahawk Development bentu á að fjárfestar tengdu Ísland við áhættu og litu þá einnig til örra lagabreytinga sem hefðu áhrif á rekstarumhverfi fyrirtækja, m.a. með nýrri eða aukinni skattheimtu. Magnús lagði áherslu á að tækifærið fælist í því að færa aflandskrónur yfir í langtímafjárfestingar í arðbærum verkefnum.

Agnar Hansson, forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Arctica Finance, sagði rót vandans vera vantraust á íslensku efnahags- og atvinnulífi. Sé traust ekki til staðar er varla hægt að tala um að krónueign erlendra aðila sé eina „snjóhengjan“ sem farið gæti af stað við losun hafta. Íslenskir sparifjáreigendur og fjárfestar gætu þá alveg eins viljað út úr krónunni svo stærð hengjunnar sé óþekkt. Niðurstaða Agnars var að leggja eigi höfuðáherslu á að byggja upp traust og treysta svo kröftum markaðarins enda skilvirkasta verkfærið.

Áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishaftanna er skipt upp í áfanga þar sem fyrsta skrefið er að tryggja langtímafjármögnun ríkissjóðs og lausafjáröryggi bankanna. Þeir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Freyr Hermannsson, hagfræðingur á alþjóða- og markaðssviði Seðlabankans, sögðu þetta nauðsynlegt til að forðast óþarfa áhættu og tryggja lánshæfismat ríkissjóðs. Mikilvægur hluti áætlunarinnar er að gera fjárfestum kleift að nýta aflandskrónur til langtíma fjárfestingarverkefna á Íslandi. Arnór sagði helsta kost áætlunarinnar þann að ef hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum á nokkrum mánuðum þá verði það gert. Reynist áhættan og skriðþunginn út úr krónunni meiri þá sé hægt að fara hægar. Lykilatriðið er að höftin hverfi.

Deila