Forsetaheimsókn til Noregs - Málstofa í Bergen um sjávarútveg

Bæta viðburði í dagatal

Í tilefni opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Noregs í mars standa Íslandsstofa og Innovasjon Norge, í samstarfi við sendiráð Íslands í Noregi og Háskólann í Bergen, fyrir málstofu um sjálfbærni og verðmætasköpun í sjávarútvegi. Málstofan verður haldin í Bergen fimmtudaginn 23. mars nk. og hefst kl. 10:30.

Flutt verða erindi um nýsköpun, tækifæri tengd áður óveiddum tegundum hafsins og fullnýtingu afurða - að viðstöddum Noregskonungi, forseta Íslands ásamt forsetafrú og utanríkisráðherra.

Í framhaldi af málstofunni er efnt til vinnustofu meðal gesta um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hátækni. Markmiðið með viðburðinum er að horfa til framtíðar og ræða hvernig Ísland og Noregur geti í sameiningu stuðlað að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi með veiði og vinnslu nýrra tegunda. Þannig mætti skapa ný störf og tekjustrauma og auka hagsæld til framtíðar.

Nánari upplýsingar um viðburðinn veita Erna Björnsdóttir (erna@islandsstofa.is) og Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir (gunnhildur@islandsstofa.is).