Flosi Eiríksson
Verkefnisstjóri, ráðgjöf og fræðsla

Tilgangur verkefnisins er að aðstoða fyrirtæki við að finna samstarfsaðila og viðskiptavini á markaði erlendis. Verkefnið er unnið í samstarfi við ráðgjafa á helstu markaðssvæðum og skiptist í tvo hluta. Byrjað er á að kanna markaðinn og möguleg tækifæri og í framhaldi vinna fyrirtæki og ráðgjafi að því í sameiningu að leiða saman rétta aðila. Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa góða reynslu af þátttöku í verkefninu og eru dæmi þess að fyrirtæki taki þátt oftar en einu sinni. 

Umsóknarferlið

Fyrsta skrefið er að sækja um þátttöku í verkefninu með því að fylla út umsóknareyðublað. Í framhaldi er sú umsókn yfirfarin af stýrihóp. Ef eitthvað vantar upp á að fyrirtækið fái inngöngu í verkefnið fær það tækifæri til að bæta úr því og er umsóknin þá tekin fyrir á nýjan leik. Sé umsóknin samþykkt hefst verkefnið á því að koma fyrirtækinu í samband við ráðgjafa á viðkomandi markaði.

Kanna markað

Ráðgjafi kannar hvaða möguleikar eru fyrir hendi fyrir viðkomandi vöru eða þjónustu. Niðurstöðu þeirrar vinnu skilar hann í formi skýrslu til Íslandsstofu sem boðar þá fulltrúa fyrirtækisins á fund. Á þeim fundi eru möguleikar á ávinningi á móti kostnaði metnir og reynt að komast að niðurstöðu um hvort fyrirtækið skuli halda áfram eða bíða og undirbúa sig frekar.

Innganga á markað

Ef niðurstaða beggja aðila er sú að tækifæri á markaði séu til staðar, hefst vinna við að finna réttan samstarfsaðila og er það hlutverk erlenda ráðgjafans að finna þá og meta hæfni þeirra.

Verkefnið endar síðan á því að ráðgjafinn, í samstarfi við fulltrúa fyrirtækisins, setur upp fundi með mögulegum samstarfsaðilum á viðkomandi markaði.

Kostnaður við þátttöku í Útstím

Þátttökugjaldið skiptist í tvennt. Greitt er sérstaklega fyrir fyrsta hluta verkefnisins, markaðsskönnunina, og haldi fyrirtækið áfram í seinni hlutann, innganga á markað, bætist sá kostnaður við. Gert er ráð fyrir að þátttakendur greiði um það bil 1/3 af heildarkostnaði við verkefnið. Íslandsstofa greiðir það sem eftir stendur.

Að öllu jöfnu stendur verkefnið yfir í nokkra mánuði og gera þarf ráð fyrir utanlandsferð sem fyrirtækið greiðir sjálft fyrir til viðbótar við þátttökugjaldið.

Samstarfsaðilar Íslandsstofu í verkefninu eru viðskiptafulltrúar við sendiráð Íslands og ráðgjafarfyrirtæki á erlendri grund. Útstím er sjálfstætt framhald Útflutningsverkefnisins ÚH en þó er ekki skilyrði fyrir þátttöku að fyrirtæki hafi áður lokið ÚH.