Þýskaland

Samfélagið

Ísland og Þýskaland eru svipuð hvað stöðu einstaklingsins í samfélaginu varðar. Einstaklingurinn kemur á undan hópnum, hver skal bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum allra nánustu. Hinsvegar eru miklu skýrari reglur í Þýskalandi, skrifaðar og óskrifaðar, sem einstaklingnum bera að fylgja svo samfélag virki eins og það á að gera. Frelsi einstaklingsins til athafna er þannig ekki eins mikið og í löndum eins og Bandaríkjunum.

Réttlæti

Reglur og að gera hlutina rétt vega mun þyngra í Þýskalandi en frumkvæði og að hugsa út fyrir kassann. Sömu reglur eiga að gilda fyrir alla, háa sem smáa. Þetta skiptir sérstaklega máli í norðurhluta Þýskalands, syðri hlutinn er latínskari og leggur meiri áherslu á persónuleg tengsl og aðstæður frekar en að fylgja öllum reglum nákvæmlega eftir bókinni.

Samskipti

Stigveldi er mun meira í Þýskalandi en Íslendingar almennt eiga að venjast. Menn þérast, nota eftirnöfn og titla og það er mikilvægt að bera virðingu fyrir því. Goggunarröð innan fyrirtækja er sömuleiðis skýr, en samskiptin eru þó almennt opin og virk, frekar en stíf og hæg. Það skiptir öllu máli að fylgja áætlunum, framkvæma á öruggan og áreiðanlegan hátt og skila af sér vöru og þjónustu á þeim tíma og í þeim gæðum sem um var samið. Húmor er yfirleitt ekki hluti af fundum eða kynningum, hann á heima í óformlegum samskiptum viðskiptaaðila.

Umhverfið

Þjóðverjar vilja hafa stjórn á umhverfi sínu. Samfélagið gengur best ef allir fylgja reglunum og sinna sínum fyrirfram ákveðnum hlutverkum. Menn bera þó virðingu fyrir því að þeir geti ekki stjórnað öllu í kringum sig og að það sé mikilvægt að geta brugðist við breyttum aðstæðum á skipulegan hátt. Skipulag er hér lykilatriði, menn vilja vita sem mest um hvað geti mögulega haft áhrif og breytt aðstæðum og vera klárir með viðbragðsáætlun við öllu því sem upp geti komið.

Tíminn

Stundvísi er dyggð í Þýskalandi. Það er afar mikilvægt að mæta á réttum tíma, afhenda vörur áður en afhendingartíminn rennur út, í stuttu máli, standa algerlega við allar tímasetningar. Þetta er líklega einn af stærstu veikleikum Íslendinga í alþjóðaviðskiptum, að slá hlutum á frest, virða ekki tímasetningar og áætlanir og mæta aðeins of seint á fundi og viðburði. Ef aðstæður breytast er afar mikilvægt að láta vita um leið og vera með góðar skýringar og varaáætlun á reiðum höndum. Skilin milli vinnu og einkalífs eru skýr í Þýskalandi og það ber að virða. Menn sinna almennt ekki vinnu á fjölskyldutíma.

Vald

Þeir sem eru efstir í stigveldinu taka ákvarðanir. Ákvarðanirnar byggja á þekkingu og reynslu fyrirtækisins/starfsmanna og mikilvægt fyrir æðstu stjórnendur að geta rökstutt ákvarðanir sínar svo virðing sé borin fyrir þeim. Þekking á viðfangsefninu skiptir mjög miklu máli, tæknilegar, sögulegar, osfrv til að skapa traust og öðlast virðingu og þar með vald. Menntun er lykilatriði, titlar skapa traust og vald, menn ávinna sér vald og virðingu með því að leggja á sig vinnu og ná árangri.