Noregur

Samfélagið

Noregur og Ísland eru á svipuðum slóðum hvað varðar hlutverk einstaklings í samfélaginu. Báðar þjóðir leggja áherslu á að einstaklingurinn beri ábyrgð á sjálfum sér. Hópurinn/samfélagið hefur þó töluvert vægi í báðum löndum enda margar fámennar byggðir og sveitafélög í þeim báðum og það hvetur til ákveðinnar, að menn passi upp á hvern annan. Fjölskyldan skiptir miklu máli, er hornsteinn samfélagsins.

Réttlæti

Norðmenn eru regluþjóð, eitt skal yfir alla ganga og menn virða og treysta þeim sem standa við orð sín. Samningar þurfa ekki að vera ítarlegir, en menn vilja helst fara eftir þeim frekar en að breyta ef aðstæður breytast. Samskipti Íslendinga og Norðmanna um makrílveiðar eru ágætis dæmi um þetta, Norðmenn vilja ekki breyta fyrirkomulagi kvóta þrátt fyrir að aðstæður í sjónum hafi breyst. Norðmenn eru þó taldir sveigjanlegri en margar þjóðir sem vilja halda fast í samninga, hvað sem á dynur.

Samskipti

Eins og Íslendingum líður Norðmönnum best þegar samskipti eru óformleg. Þeir vilja geta sagt sína meiningu í stað þess að fara í kringum hlutina. Menn kunna frekar að meta að fá skýr svör en loðin og taka hreinskilni ekki sem persónulegri móðgun þótt það sem sagt sé ekki samkvæmt þeirra væntingum. Norðmenn taka gjarna áhættur í samningaviðræðum, en eru sanngjarnir og vilja að allir gangi sáttir frá borði. Norðmenn. „Þetta reddast“ hugarfarið hentar Norðmönnum almennt ekki. Þeir kunna betur að meta skýrt skipulag, skýra aðgreiningu milli vinnu og einkalífs og áætlanir sem standast. Stigveldi í fyrirtækjum er almennt flatt eins og á Íslandi. Ákvarðanir eru meira teknar af hópum í Noregi en á Íslandi og því þarf að sýna þolinmæði þar sem ákvörðunartökuferlið er lengra.

Umhverfið

Þrátt fyrir að Norðmenn séu miklir náttúruunnendur og hafi í gegnum söguna verið háðir náttúruöflunum, eru þeir almennt þeirrar skoðunar að menn stjórni sjálfir sínum örlögum í stað þess að vera háðir öðrum eða ytri aðstæðum. Olíuvinnsla og olíusjóður Norðmanna er gott dæmi um þetta. Þeir sem eru ekki háðir ytri aðstæðum eru jafnan opnari fyrir nýjum hugmyndum og leiðum en þeir sem trúa og treysta á aðra og ytri aðstæður. Í samningaviðræðum er því gott að horfa til framtíðar frekar en fortíðar, leggja áherslu á þau tækifæri og möguleika sem viðkomandi vara eða þjónusta skapar.

Tíminn

Norðmenn eru línulaga í hugsun. Þeir hugsa um tímann sem mælistiku, maður gerir eitt í einu og þegar klukkan segir manni að það sé komin tími til að gera annað er því gjarna fylgt. Þetta gildir ekki hvað síst um vinnutíma. Hann er styttri en víðast annars staðar og það er ekki vinsælt að trufla Norðmenn utan þeirra vinnutíma. Þótt þeir leggi ekki jafn mikið upp úr stundvísi og nákvæmum tímasetningum og nágrannar þeirra Svíar, eiga þeir oft erfitt með íslenskar tímasetningar og skipulagningu – að stökkva til verks og vinna hratt án þess að vera með nákvæmar framkvæmdaáætlanir.

Vald

Menn ávinna sér virðingu og vald í Noregi eins  og á Íslandi og þurfa að standa sig vel til þess að halda virðingu annarra. Titlar, aldur og kyn skiptir minna máli en hvað þú kannt og getur. Í kynningum og samningaviðræðum þýðir þetta að þetta að ítarleg þekking á því sem er verið að kynna og semja um skiptir höfuðmáli, mun meira máli en formleg staða þeirra og bakgrunnur sem sitja við samningaborðið.

Heimild: Guðjón Svansson, alþjóðasamskiptafræðingur, Intercultural Communication á Íslandi ehf