Kína

Samfélagið

Ísland setur einstaklinginn mun ofar en Kína sem leggur meiri áherslu á að hópurinn komi fyrst. Ákvaraðantaka í Kína er lengra ferli sem fleiri koma og mikilvægt að sýna því þolinmæði. Fulltrúar Kína í samningaviðræðum þurfa sömuleiðis mjög líklega að ráðfæra sig við baklandið heima fyrir í stað þess að taka endanlegar ákvarðanir á staðnum. Hópnum fylgir vald, því fleiri sem eru í för með þér, því valdameiri ert þú.

Réttlæti

Aðstæður og þjóðfélagsstaða skipta meira máli í Kína samanborið við Ísland þar sem sömu reglur eiga að gilda fyrir alla. Persónuleg tengsl skipta miklu máli í Kína og að vera vel tengdur inn í samfélagið og stjórnkerfið þar sem það á við. Það er mikilvægt að gera ráð fyrir því að litið sé á samninga sem staðfestingu á samstarfi, frekar en nákvæmar reglur sem verði að fylgja sama hvað aðstæður breytast.

Samskipti

Íslendingar eru aldir upp við mjög hreinskiptin samskipti, að menn segi þar sem þeir og svari spurningum skýrt. Kínverjar leggja meiri áherslu á að halda samskiptunum góðum, í jafnvægi. Að segja nei getur verið mikil móðgun sem ber að forðast. Virðing skiptir öllu máli í samskiptum, að bera virðingu fyrir titlum, aldri, nafnspjöldum, öllu sem tengist þeim sem átt er í samskiptum við.

Umhverfið

Íslendingar trúa meir á eigin mátt en Kínverjar sem eru líklegri til að taka tillit til ytri aðstæðna. Litir, tölur og tímasetningar skipta til dæmis miklu máli í Kína. Það þarf að huga að mörgu og gera hlutina rétt svo þeir gangi upp og það er mikilvægt að taka tillit til þessa.

Tíminn

Íslendingar leggja áherslu á stundvísi og að fylgja tímasetningum, en eru í samanburði við þær þjóðir sem ganga þar lengst frekar afslappaðir og oft á síðustu stundu með hlutina. Kínverjar horfa lengra fram í tímann, leggja áherslu á að byggja upp góð tengsl til lengri tíma.

Vald

Á Íslandi byggist vald frekar á því hvað þú gerir en hverra manna þú ert. Stéttaskipting er lítil og samskipti undir- og yfirmanna yfirleitt opin. Í Kína er mun meira stigveldi. Titlar og stöður skipta miklu máli varðandi ákvarðanir og öll samskipti. Kínverjar eru formlegri og það sem Íslendingar líta á sem jákvæð óformlegheit getur verið túlkað sem dónaskapur og ruddaskapur.

Heimild: Guðjón Svansson, alþjóðasamskiptafræðingur, Intercultural Communication á Íslandi ehf