Kanada

Samfélagið

Kanada er fjölmenningarsamfélag og með þeim fremstu í heiminum hvað varðar aðlögun ólíkra menningarhópa. Í alþjóðaviðskiptum þykja Kanadamenn einstaklingsmiðaðir eins og Íslendingar, einstaklingar geta þannig verið fulltrúar fyrirtækja og tekið ákvarðanir fyrir þeirra hönd. Ákvarðantaka getur þó tekið lengri tíma í Kanada þar sem áhersla er lögð á að allir aðilar séu sáttir við væntanlega niðurstöðu áður en ákvörðun er endanlega tekin.

Réttlæti

Í samanburði við önnur lönd og menningarsvæði eru Ísland og Kanada á svipuðum stað hvað viðhorf til réttlætis varðar. Reglur eiga að gilda fyrir alla, sama hvaða stöðu menn hafa og hvaða bakgrunn þeir hafa. Í viðskiptum þýðir þetta að persónuleg tengsl eru ekki forsenda viðskipta, heldur frekar afleiðing góðs viðskiptasambands. Fólk í báðum löndum treystir lögum og reglum og vill að aðrir geri slíkt hið sama.

Samskipti

Kanadamenn eru mun nær Íslendingum en til að mynda Kínverjar og Japanir hvað varðar hrein og bein samskipti. Já þýðir já í Kanada og það er í lagi að segja nei þegar það á við. Það er gerður greinarmunur á viðfangsefninu og persónunum sem taka þátt í samskiptunum á meðan þetta fléttast mun meira saman í Asíu og menn taka neitunum og mjög skýrum skilaboðum sem persónulegum móðgunum. Fáar þjóðir nota og túlka orð á beinni hátt en Íslendingar, Kanadamenn með sitt fjölmenningarlega þjóðfélag eru vanari í að túlka aðstæður, líkamstjáningu og það sem ekki er sagt.

Umhverfið

Í alþjóðlegu samhengi hafa Kanadamenn þá trú að þeir ráði að mestu eigin örlögum, að þeir séu ekki háðir utanaðkomandi aðstæðum. Íslendingar eru á svipuðum slóðum hvað þetta varðar. Báðar þjóðir búa þó við landfræðilega krefjandi aðstæður aðstæður og þetta hefur áhrif á þjóðarmenningu beggja landa án þann hátt að menn viðurkenna að þeir ráði ekki við allar aðstæður og stundum verði að laga sig að og vinna með náttúruöflunum. Þetta skilar sér í vissri aðlögunarhæfni í alþjóðaviðskiptum.

Tíminn

Íslendingar og Kanadamenn horfa almennt á tímann með línulegum augum. Honum er skipt niður í einingar, fjölskylda, vinna og áhugamál og fólk gerir yfirleitt einn hlut í einu. Tíminn er peningar, það þarf að nýta hann vel. Margar þjóðir og menningar líta tímann öðrum augum. Hann fer í hringi, gjöf sem aldrei klárast og það verður alltaf nægur tími. Fólki er forgangsraðað hærra en stundvísi. Í samhengi alþjóðaviðskipta, leggur Kanada enn meiri áherslu á stundvísi en Ísland, að áætlanir og tímasetningar standist.

Vald

Kanadamenn og Íslendingar á svipuðum stað hvað varðar vald og virðingastöður. Fólk vinnur sér inn virðingu annara með gjörðum sínum í stað þess að fæðast inn í virðingarstöður eins og tíðkast á ákveðnum svæðum. Valddreifing er mikil og stutt bil milli stjórnenda og starfsmanna og stjórnendur í báðum löndum búast við og ætlast til að starfsmenn sýni frumkvæði og láti vita ef þeir eru ósáttir með skýrum hætti.

Heimild: Guðjón Svansson, alþjóðasamskiptafræðingur, Intercultural Communication á Íslandi ehf