Japan

Samfélagið

Japan er mjög hópmiðað samfélag í samanburði við Ísland. Einstaklingar fylgja mun frekar skrifuðum og óskrifuðum reglum samfélagsins og þeirra hópa sem þeir tilheyra. Allir hafa sína stöðu innan hópsins og það er mikilvægt að fylgja því stigveldi sem þar gildir. Ákvarðantaka er hægari í hópmiðuðum löndum þar sem fleiri koma að málum og þurfa að samþykkja þá ákvörðun sem er tekin. Þolinmæði er því dyggð fyrir þá sem eru einstaklingsmiðaðri og vanir hraðari ákvarðanartökum.

Réttlæti

Þótt skrifaðar og óskrifaðar reglur séu afar mikilvægar í Japan, eru persónuleg tengsl og traust milli aðila forsenda árangursríkra viðskipta. Langir og ítarlegir samningar geta verið túlkaðir sem móðgun, viðskipti eiga að byggjast á trausti, virðingu og vilja til langtíma samstarfs. Réttlæti felst í því að endurskoða og laga til samninga ef aðstæður breytast mikið, frekar en að halda fast í hið skrifaða orð.

Samskipti

Gott tengslanet er lykilatriði í Japan. Án þess komast menn lítið áfram. Samskipti byggja á virðingu og það er mikilvægt að gera sér grein fyrir og kunna skil á virðingarröðinni. Aldur, titlar og bakgrunnur skiptir miklu máli í samanburði við Ísland þar sem menn bera frekar virðingu fyrir því sem aðrir hafa gert og áorkað, óháð aldri eða bakgrunni. Samskipti eru formleg og yfirveguð og það er mikilvægt að hvorki móðga hinn aðilann né gera lítið úr sjálfum sér. Þögn í samræðum er tákn um virðingu, að viðkomandi sé að vega og meta það sem sagt hafi verið.

Umhverfið

Í samanburði við Íslendinga taka Japanir meira tillit til umhverfisins og ytri aðstæðna. Walkman frá Sony (Ipod í dag) er gott dæmi. Fundið upp í Japan, tilgangurinn var að einstaklingar gætu hlustað á tónlist án þess að trufla aðra. Á vesturlöndum er tilgangurinn frekar að einstaklingar geti hlustað á tónlist án þess að verða truflaðir af öðrum. Í Japan er áhersla er lögð á að vinna með umhverfinu og utanaðkomandi aðstæðum, að bregðast við öldunum og nýta sér kraft þeirra í stað þess að vaða beint í þær og láta þær velta sér um koll.

Tíminn

Íslendingar eru ekki allra þjóða stundvísastir, en eru þó mjög háðir klukkunni og öðrum tímasetningum. Áætlanir miðast við ákveðnar tímasetningar og það skiptir máli að staðið sé við þær. Í Japan skipta fólk og aðstæður meira máli en nákvæmar tímasetningar. Ef aðstæður eru þannig að það þarf að lengri tíma til að ræða hluti áður en ákvarðanir eru teknar, til dæmis til að fá skoðanir allra þeirra skipta máli í hópnum upp á borðið, þá er tekinn meiri tími í það. Það er mikilvægara að farin sé rétt leið í ákvörðunartökunni, en að klukkunni sé nákvæmlega fylgt. Þetta er atriði sem menn verða að hafa í huga áður en þeir skipuleggja heimsókn til Japans, að gefa sér nógan tíma, mun rýmri en færi í samningaviðræður á Íslandi.

Vald

Á Íslandi er borin virðing fyrir þeim sem standa sig vel, leggja mikið á sig og ná árangri. Kyn, aldur, bakgrunnur og menntun skiptir minna máli í því samhengi. Í Japan skiptir árangur miklu máli, en hann næst með því að fara rétta leið og kyn, aldur, fjölskyldubakgrunnur og titlar skipta þar afar miklu máli. Menn færast jafnt og þétt upp virðingarstigann, ef þeir fylgja reglunum skrifuðu og óskrifuðu, og uppskera virðingu þeirra yngri og um leið vald til þess að taka ákvarðanir – með hag hópsins í huga. Það er mikilvægt að mæta vel undirbúinn með þetta í huga á fundi og til samningaviðræðna með aðila innanborðs sem hafa svipaða valdastöðu og japanski hópurinn. Aldur og titlar þurfa að passa nokkurn veginn saman til að þær beri góðan ávöxt.

Heimild: Guðjón Svansson, alþjóðasamskiptafræðingur, Intercultural Communication á Íslandi ehf