Danmörk

Samfélagið

Danir taka mikið tillit til hópsins rétt eins og Norðmenn og Svíar. Hópurinn passar sömuleiðis einstaklinginn, bæði að hann sökkvi ekki of djúpt og að hann fari ekki fram úr sér og finnist hann vera betri en aðrir. Einstaklingurinn hefur þó mjög mikið vægi í Danmörku, stórt hlutverk og sömuleiðis mikið frelsi innan rammanna. Málfrelsi er til dæmis afar mikilvægt, allir eiga að fá að hafa sína skoðun á hlutunum og rétt á að koma henni á framfæri sama hvað öðrum finnst um hana. Hefðir og venjur eru sterkar, sérstaklega þær sem tengjast fjölskyldunni. Danir eru mikil viðskiptaþjóð, vanir samningum og sölumennsku og fljótir að sjá og nýta sér þau tækifæri sem gefast. Ákvarðanir geta þó í augum Íslendinga tekið langan tíma þar sem margir þurfa yfirleitt að koma að henni vegna mikilvægi hópsins í dönsku samfélagi.

Réttlæti

Reglur eru eins og á hinum Norðurlöndunum mikilvægar og ábyrgð borgarans á að allir fari eftir reglum er mikil. Nágrannar hafa þannig auga með hvor öðrum og sjálfsagt þykir að láta vita ef einhver virðist ekki vera að fylgja lögum og reglum á einhvern hátt. Viðskipti koma á undan persónulegum tengslum, en mikil viðskiptareynsla Dana á alþjóðavísu þýðir að þeir eru almennt góðir í mannlegum samskiptum og að mynda persónuleg tengsl þar sem á þarf að halda.

Samskipti

Danir eru óformlegir í samskiptum rétt eins og Íslendingar og þrátt fyrir mikla hópkennd eru þeir yfirleitt opnir í samskiptum, segja meiningu sína. Hin sterka trú á málfrelsi einstaklingsins spilar þar stóra rullu. Það þykir allt í lagi að vera öðruvísi í Danmörku á meðan menn þykjast ekki vera betri en aðrir. Danir eru ólíkir Íslendingum varðandi skipulag og áætlanagerð, bæði í viðskiptalífinu og einkalífinu. Fundir og mannfagnaðir eru skipulagðir langt fram í tímann og ákvarðanir þurfa að vera vel rökstuttar og studdar af nákvæmi skipulagi áður en þær eru teknar.

Umhverfið

Danir trúa því að þeir stjórni eigin örlögum. Þar hefur áhrif að Danmörk býr yfir takmörkuðum náttúrulegum auðlindum og hefur þurft að treysta á hugvit og viðskipti til að komast af. Menn bera ábyrgð á verkefnum sínum, eru opnir fyrir nýjum lausnum og leiðum og skapandi hugsun er ríkjandi og vel séð.

Tíminn

Danir eru skipulagðir, horfa langt fram í tímann og gera skýran mun á vinnu og fjölskyldulífi. Það er mikilvægt að virða eigin tíma og annarra. Í vinnutímanum er dyggð að afkasta miklu, vinna vel og nýta tímann vel. Utan vinnutíma eru menn afslappaðri og leggja mikið vægi á að eyða tíma með fjölskyldu og vinum.

Vald

Vald er áunnið í Danmörku og byggt á því sem þú gerir, ekki hvaðan þú kemur. Það er mikilvægt að fara vel með þetta vald, fara ekki yfir strikið, þá missa menn gjarna virðingu annarra. Þótt stjórnendur taki lokaákvarðanir búast millistjórnendur við því að fá að taka þátt í ákvörðunum og láta skoðun sína í ljós.

Heimild: Guðjón Svansson, alþjóðasamskiptafræðingur, Intercultural Communication á Íslandi ehf