Bretland

Samfélagið

Bretar leggja almennt vægi á einstaklingsframtak, að hver beri ábyrgð á sjálfum sér og hafi frelsi til þess að vera öðruvísi. Það má staðsetja þá á milli Bandaríkjanna, þar sem einstaklingsfrelsið er hvað mest metið, og Þýskalands, þar sem einstaklingsframtakið er mjög virt, en um leið háð skrifuðum og óskrifuðum reglum samfélagsins.

Réttlæti

Reglur skipta miklu máli í Bretlandi og þær eiga að gilda fyrir alla. Þetta hefur breyst hægt og rólega síðustu áratugi, með minnkandi/hverfandi vægi aðalsstéttarinnar hefur undantekningnum frá reglum fækkað. Bretar eru góðir samningamenn með mikla og fjölbreytta reynslu eftir heimsveldisárin og samningar hafa mikið vægi í Bretlandi. Menn bera virðingu fyrir þeim sem standa við samninga og orð sín og undantekningar eða aðlaganir vegna breyttra aðstæðna eru ekki algengar.

Samskipti

Bretar eru ekki jafn hreinskiptir og Íslendingar í samskiptum, tala frekar undir rós og gefa í skyn hvað þeir meina. Vilja þannig halda jafnvægi í samskiptunum. Það er mikilvægt að geta lesið í skilaboðin í stað þess að túlka þau bókstaflega. Húmor er mikilvægur í samskiptum Breta og mikið notaður innan og utan hefðbundinna viðskiptaaðstæðna. Breskir viðskiptamenn byrja gjarna á formlegum nótum en eru fljótir að skipta yfir í óformlegan gír sem hentar Íslendingum vel.

Umhverfið

Bretar eru svipaðir Íslendingum að því leyti að þeir telja sig almennt ráða eigin örlögum í stað þess að vera háðir ytri aðstæðum. Viðhorf til samningaviðræðna endurspegla þessa sýn, menn reyna að ná sem bestri niðurstöðu fyrir sig frekar en að einblína á hag beggja.

Tíminn

Bretar eyða miklum tíma í vinnunni. Vinnusemi er dyggð og því meiri tíma sem þú notar í vinnu, því líklegra er að þú náir langt. Stundvísi er mikilvæg sem og að halda sig við allar áætlanir og tímasetningar. Persónuleg tengsl vega ekki eins þungt og að halda áætlun, ólíkt löndum eins og Kína. Menn bera virðingu fyrir tíma annara, virða biðraðir í stað þess að berjast um að verða fyrstur. Gott skipulag er lykilatriði árangurs og tíminn skiptir þar miklu máli. Menn hugsa um einn hlut í einu, vinnan er yfirleitt aðskilin einkalífinu, börn hafa sinn tíma en eiga ekki að trufla foreldrana utan þess tíma, osfrv.

Vald

Þótt stéttaskipting sé ekki eins mikil og skýr og hún var í Bretlandi, þá skiptir enn máli hvaðan þú kemur og hvernig þú kemur fyrir. Menn eru enn dæmdir eftir mállýsku og hreim. En almennt skiptir meira máli í Bretlandi hvað þú hefur gert og áorkað, frekar en hverra manna þú ert, hvað þú ert gamall eða hvort þú ert maður eða kona. Menn vinna sér inn virðingu og vald. Stigveldið er ekki eins flatt og á Íslandi, ákvarðanir eru teknar á toppnum og það er afar mikilvægt að eiga samskipti við þá sem virkilega hafa vald til að taka ákvarðanir.

 

Heimild: Guðjón Svansson, alþjóðasamskiptafræðingur, Intercultural Communication á Íslandi ehf