Bandarískt samfélag

Bandaríkin er land fjölbreytileikans og samskipti, venjur og reglur eru ólík eftir landshlutunum og samfélögum. Hér eru Bandaríkin borin saman við Ísland og önnur heimsins lönd út frá þeim hefðum, venjum og gildum sem Bandaríkjamenn eiga helst sameiginlegt í samanburði við aðra og móta þeirra alþjóðasamskipti. Frelsi einstaklings til athafna er sterkt í Bandaríkjunum og trúin á að allir geti gert og orðið það sem þeir vilja er sterk.

Réttlæti

Reglur eru reglur í Bandaríkjunum og háir sem smáir eiga að fara eftir þeim. Hið skrifaða orð hefur mikið vægi í þessu sambandi og það er mikilvægt að skrá nákvæmlega hvað samkomulag milli aðila gengur út á áður og hvernig skuli tekið á málum ef aðstæður breytast. Þá er einfalt að fletta því upp og bregðast við samkvæmt því sem var fyrirfram ákveðið. Samningar eru eðli málsins samkvæmt gjarna mjög ítarlegir og hvorki einfalt né vel séð að breyta þeim, þótt aðstæður breytist.

Samskipti

Persónuleg tengsl eru ekki forsenda viðskipta í Bandaríkjunum. Viðskipti eru viðskipti og það sem er sagt á fundum og í öðru samhengi við viðskipti á ekki að taka persónulega. Það þýðir alls ekki að Bandaríkjamenn hafi ekki áhuga á þeim sem þeir eru í viðskiptum við eða vilji ekki kynnast þeim heldur að viðskiptin koma fyrst – og eru tryggð með ítarlegum samningum – persónuleg tengsl myndast svo gjarna sem afleiðing góðs viðskiptasambands.

Umhverfið

Bandaríkjamenn vilja hafa sem mest áhrif sjálfir hvað gerist í þeirra lífi í stað þess að láta utankomandi aðstæður stýra því of mikið. Í alþjóðaviðskiptum lýsir þetta sér í mjög ákveðinni afstöðu til samningaviðræðna þar sem sigur skiptir oft meira máli en að báðir aðilir gangi jafnt sáttir frá borði. Samningaviðræður eru keppni og eins í langflestum íþróttagreinum í Bandaríkjunum eru þar sigurvegarar, jafntefli eru alger undantekning í bandarískum íþróttum. Menn vilja geta stýrt aðstæðum og eiga þar af leiðandi stundum erfitt með að laga sig að breytilegum aðstæðum á meðan Íslendingar eru vanari því.

Tíminn

Það að líta á tímann sem peninga er hvergi skýrara en í Bandaríkjunum. Frí og fæðingarorlof eru til að mynda mun styttri þar en víðast hvar. Tíminn og peningar koma fyrst, starfsmenn (fólk) þurfa að laga sig að því. Áætlanir, skipulag, afhendingartími, stundvísi og allt annað sem tengist því að gera hluti innan þess tímaramma sem áætlaður var er hátt skrifað og merki um virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Vald

Þú skapar þér virðingu og vald með gjörðum þínum. Árangur leiðir til valds. Fjölskylduaðstæður og bakgrunnur hjálpa auðvitað til, en ólíkt samfélögum þar sem ómögulegt er að vinna sig upp milli þjóðfélagsstétta, er það mögulegt í Bandaríkjunum og það hefur áhrif á hverju menn bera mest virðingu fyrir. Í samningaviðræðum er mikilvægt að vera með tölur og allar staðreyndir á hreinu, það er borin meiri virðing fyrir þekkingu heldur en kyni, aldri og titlum viðsemjendanna.

Heimild: Guðjón Svansson, alþjóðasamskiptafræðingur, Intercultural Communication á Íslandi ehf