Þorleifur Þór Jónsson
Viðskiptasendinefndir, tengiliður við ferðaþjónustu á fjarmörkuðum

Tilgangur viðskiptasendinefnda er að leita viðskiptatækifæra, efla tengsl og koma á nýjum samböndum erlendis. Viðskiptasendinefndir opna íslenskum fyrirtækjum dyr að nýjum mörkuðum og hafa skilað þeim góðum árangri svo sem fyrirtækjum í orkuiðnaði, ferðaþjónustu, sjávarútvegi eða á sviði fjárfestinga. Íslandsstofa skipuleggur fjölda slíkra ferða á ári hverju, aðallega á nágrannamarkaði en einnig á fjarlægar slóðir og eru þátttakendur fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Viðskiptasendinefndir eru skipulagðar með mismunandi hætti, eftir því hverjar áherslurnar eru:

Könnunarferðir: Viðskiptasendinefndir funda með fyrirtækjum, stofnunum, bönkum, ráðgjafarfyrirtækjum og öðrum aðilum sem veitt geta upplýsingar um viðskiptaumhverfi og tækifæri á markaði. Markmiðið er að kanna aðstæður og stuðla að tengslum.

Fundaferðir: Heimsóknir viðskiptasendinefnda byggja á fyrirfram skipulögðum fundum, þar sem höfuðáhersla er lögð á að mæta óskum og þörfum hvers fyrirtækis. Unnið er í nánu samstarfi við erlenda sérfræðinga á viðkomandi markaði.

Vegsaukaferðir: Efnt er til ferða viðskiptasendinefnda í tengslum við opinberar heimsóknir íslenskra ráðamanna. Fyrirtæki njóta góðs af jákvæðri athygli sem fulltrúar Íslands vekja; í opinberum móttökum, við undirritun samninga eða með þátttöku í ráðstefnum.

Viðburðaferðir: Heimsóknir viðskiptasendinefnda eru skipulagðar í tengslum við ráðstefnur, sýningar eða álíka viðburði ytra. Áhersla er lögð á að koma á viðskiptasamböndum.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í viðskiptasendinefnd, hafðu þá samband við Þorleif Þór Jónsson og hann veitir þér upplýsingar um sendinefndirnar.